Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sex til viðbótar greinast með COVID-19

08.03.2020 - 13:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra staðfesti á öðrum tímanum í dag að sex til viðbótar hefðu greinst með smit af völdum COVID-19. Þar með hafa 55 greinst með smit. Þrír af þessum sex sem greindust frá því í gær smituðust hérlendis. Rekja má smit þeirra til einstaklinga sem voru á skilgreindum hættusvæðum erlendis. Af 55 smitum eru tíu innlend.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á blaðamannafundi í dag að tveir hefðu greinst með smit í dag, hvort tveggja Íslendingar. Hann sagði að áfram væri unnið að greiningu fleiri sýna. Einn þeirra sem smituðust kom hingað til lands frá Asíu.

„Við erum ekki að sjá frekari útbreiðslu hér, sem er mjög ánægjulegt,“ sagði Þórólfur og vísaði til þess að flest smitin tengdust Norður-Ítalíu. Hann sagði ekki standa til að breyta aðferðum að sinni.

Alma Möller landlæknir sagði í Silfrinu í morgun að full ástæða væri til að taka hættuna af völdum COVID-19 alvarlega „Þetta er ný veira sem við þekkjum ekki. Það er alltaf mikið áhyggjuefni og mikil óvissa að fá heimsfaraldur nýrrar veiru,“ sagði Alma. „Það er ekki til bóluefni og það er ekki til meðferð.“

Um 80 prósent þeirra sem veikjast fá væg einkenni. Fimm prósent verða alvarlega veik. „Þetta eru alvarleg veikindi og alvarlegur faraldur,“ sagði Alma í morgun. „Herkænskan er að greina smit snemma og rekja þau, beita einangrun og sóttkví eftir því sem við á. Það verða allir að hlýða þeim reglum sem um gilda.“ Landlæknir lagði sérstaklega áherslu á að fólk myndi umgangast eldra fólk og veikburða af tillitsemi og yfirvegun. 

Fréttin hefur verið uppfærð.