Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sex karlar og fimm konur

30.11.2017 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins er skipuð sex körlum og fimm konum. Kynjaskiptingin er jafn nálægt því að vera jöfn hjá öllum flokkum og hún gat orðið, en þar sem hver og einn flokkur er með oddatölu ráðherra hallar alltaf um einn á annað kynið. Þrír af fimm ráðherrum Sjálfstæðisflokksins eru karlmenn og tvær konur. Framsóknarmenn völdu tvo karlmenn og eina konu í ráðherralið sitt og hjá Vinstri grænum völdust tvær konur á móti einum karlmanni.

Í síðustu ríkisstjórn sátu sjö karlar og fjórar konur. Þar áður sátu fimm karlar og fimm konur í ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Það voru mikil umskipti frá því þegar stjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins tók til starfa 2013, því þá fóru sex karlar og þrjár konur með ráðherraembætti. Kynjahlutfallið jafnaðist eftir því sem ráðherrum ríkisstjórnarinnar fjölgaði. Þegar vinstri stjórnin tók til starfa eftir kosningar 2009 voru jafn margar konur og karlar í stjórn en við ítrekaðar mannabreytingar í ríkisstjórninni riðluðust kynjahlutföllin, og gátu verið frá fimm konum á móti fjórum körlum til sex karla á móti fimm konum.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru eftirtaldir

 • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
 • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra
 • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra
 • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra
 • Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra
 • Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra
 • Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra
 • Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra
 • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV