Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sex á gjörgæslu og í öndunarvél

27.03.2020 - 12:27
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sex eru í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans vegna Covid 19 sjúkdómsins. Einn þeirra er eiginmaður konunnar sem lést fyrr í vikunni úr sjúkdómnum. Sonur hans segir landsmenn þurfa að gera betur í baráttunni við veiruna.

Staðfest smit á landinu voru í gær orðin 802, en tölur eru uppfærðar klukkan eitt daglega. Smit hefur greinst í öllum landshlutum og hefur 82 batnað. Rétt tæplega tíu þúsund eru í sóttkví samkvæmt nýjustu tölum og yfir 2400 hafa lokið sóttkví.

Átján eru nú á sjúkrahúsi, að því er fram kom í fréttum Bylgjunnar í hádeginu. Þar var jafnframt haft eftir forstjóra spítalans að sex væru á gjörgæslu, allir öndunarvél. Þeir voru þrír í gær. Upplýsingafulltrúi Landspítalans staðfestir þetta í samtali við fréttastofu.

Einn þessara sex er eiginmaður konunnar sem lést fyrr í vikunni af völdum sjúkdómsins. Konan var liðlega sjötug og með undirliggjandi lungnasjúkdóm. Maður hennar er hálfáttræður og hefur að sögn sonar hans verið fílhraustur og ekkert að hrjá hann þar til nú. Sonurinn telur það algjöra hendingu að þau hafi bæði veikst svona alvarlega. Hann segir að ágætlega hafi tekist að halda föður hans stöðugum í öndunarvélinni en að fjölskyldan bíði nú milli vonar og ótta.

Hann hafi rætt málið við föður sinn og þeir verið sammála um að almenningur þurfi spark í rassinn í baráttunni við veiruna - það hversu alvarlega foreldrar hans hafi báðir veikst, sýni hversu svæsinn sjúkdómurinn geti verið.