Setur Íslandsmet með því að verða 80 ára

Setur Íslandsmet með því að verða 80 ára

25.02.2018 - 19:59

Höfundar

Ég hef verið hamingjusamur, segir Auðunn Gestsson, betur þekktur sem Auðunn blaðasali, sem fagnaði áttræðisafmæli sínu í dag. Hann er líklega eini Íslendingurinn með Downs-heilkenni sem hefur náð þeim aldri.

„Ég er fæddur hjá mömmu minni og pabba í Flatey á Breiðafirði. Ég hef verið hamingjusamur,“ segir Auðunn. 

Hann var aðeins sjö ára þegar móðir hann dó. Systir  Auðuns var þá tuttugu og fjögurra ára og gekk hún Auðuni í móðurstað. Þau fluttust til Reykjavíkur og bjó Auðunn hjá Gerði þangað til fyrir tíu árum.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

„Maðurinn minn hann vildi ekki heyra það nefnt að honum yrði komið á svona stofnun. Hann sagði að honum þætti eins vænt um hann og sín börn, sem betur fór!“ segir Gerður, systir Auðuns. 

„Þetta er rosa merkilegt afmæli. Hann er að verða 80 núna og er einn af elstu einstaklingum með Downs heilkenni í heiminum,“ segir Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir, ömmubarn Gerðar og frænka Auðuns.

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Og Gerður er með skýringu á langlífi Auðuns. „Já, ég þakka það alltaf að hann skyldi fara að selja Dagblaðið og Vísi en ég var nú hrædd fyrst þegar hann fór út í blöðin en ég réði ekki við það,“ segir Gerður.

Blaðasöluferill Auðuns var mjög farsæll og hann varð landsþekktur sem Auðunn blaðasali. Hann seldi Morgunblaðið, Þjóðviljann og fleiri blöð. „Ég var með Vísir og þá kom nýtt blað, NT og eftir það ég seldi og seldi og svo hætti ég,“ segir Auðunn.

Í ljóðabók sem Auðunn gaf út fyrir fimm árum yrkir hann meðal annars um aðaláhugamál sitt, fótbolta. Hann orti vísu um KR.

Boltinn gengur áfram hart allan daginn,
rennur beint í stöngina og út af.

Tengdar fréttir

Innlent

Neita að skrá heimsmet Auðuns blaðasala

Menningarefni

Gía verður listamaður Listar án landamæra

Menningarefni

Leikur, hannar og talsetur teiknimyndir