Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sérstök umræða um spillingu á Alþingi í dag

14.11.2019 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérstök umræða fer fram á Alþingi klukkan ellefu í dag um spillingu. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, óskaði eftir umræðunni í gær eftir að fréttir bárust af greiðslum Samherja til stjórnmálamanna og hátt settra embættismanna í Namibíu. Til andsvara í umræðunni verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Morgunblaðið spurði Íslandsbanka hvort Samherjamálið hefði áhrif á viðskiptasamband útgerðarfélagsins og bankans, en Samherji hefur verið umfangsmikill viðskiptavinur bankans um árabil. Bankinn svaraði ekki spurningunni og kveðst ekki geta tjáð sig um málefni einstakra viðskiptavina. 

Viðar Helgason, fyrrverandi starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Namibíu segist í samtali við Fréttablaðið, hafa orðið miður sín eftir umfjöllunina í Kveik. „Það sem leggst allra verst í mig er að það orðspor sem við byggðum upp þarna skuli notað á þennan hátt. Ég er sannfærður um að þetta mun valda íslenskri utanríkisstefnu verulegum skaða,“ segir Viðar í samtali við Fréttablaðið. Sá skaði nái langt út fyrir Samherja. 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV