Sérstök forsætisnefnd fundar aftur

01.08.2019 - 09:40
Mynd með færslu
Fundur nefndarinnar í dag, 1. ágúst 2019.  Mynd: RÚV - Brynjólfur Þór Guðmun
Tveggja manna forsætisnefnd sem skipuð var til að fara með mál þingmannanna sex úr Miðflokknum vegna Klausturmálsins kemur saman til fundar í dag. Nefndin kom saman á þriðjudag til að fara yfir álit siðanefndar um ummæli þingmannanna á Klaustur bar og andmæli þingmannanna. Nefndin lauk ekki yfirferð sinni þá og kemur því saman í dag.

Fundurinn hefst klukkan tíu en ekki er ljóst hversu lengi hann stendur. Haraldur Benediktsson, sem skipar nefndina ásamt Steinunni Þóru Árnadóttur, sagði þá að mikil textavinna væri eftir og að því loknu þyrfti að kynna niðurstöðuna fyrir þeim þingmönnum sem eiga í hlut. 

Morgunblaðið greindi í dag frá því að Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson væru brotlegir við siðareglur samkvæmt áliti siðanefndar, sem blaðið hefði undir höndum. Þar sagði jafnframt að Anna Kolbrún Árnadóttir fengið notið vafans vegna ummæla sinna um Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartrar framtíðar. Aðrir voru ekki metnir brotlegir við siðareglur, það eru þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.

Ef forsætisnefnd afgreiðir málið í dag verður niðurstaðan fyrst send þingmönnunum sex svo að þeir geti kynnt sér hana áður en hún yrði birt opinberlega.