Sérstök Covid-deild tilbúin á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Forstöðuhjúkrunarfræðingur hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri segir starfsfólk vel undirbúið til að taka á móti fólki með kórónuveirusmit. Tvær öndunarvélar eru væntanlegar til sjúkrahússins í viðbót við þrjár sem þar eru fyrir.

Í síðustu viku lauk endurskipulagningu á starfsemi og húsnæði SAk til að takast á við kórónuveirufaraldurinn.

Hálf barnadeildin orðin Covid-deild

Kristín Margrét Gylfadóttir er forstöðuhjúkrunarfræðingur sérstakrar Covid-deildar sem þar er nú tilbúin. „Síðast, í svínaflensufaraldrinum, var barnadeildin notuð sem nokkurskonar smitsjúkdómadeild. Það er sama hugsun núna, nema núna vildum við ná að einangra þetta svolítið betur og höfum tekið helminginn af barnadeildinni undir Covid-einingu.“

Tíu ný rými og sérstakt teymi lækna og hjúkrunarfólks 

Þannig hafi skapast 10 rými sem nú nýtist sem smitsjúkdómaeining. Þá tilheyri deildinni sérstakt læknateymi auk hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Þess utan sé í gildi viðbragðsáætlun fyrir allt sjúkrahúsið auk samstarfs við heilsugæsluna. „Og við höfum tekið á móti 3-4 sem hafa komið til okkar með grun um smit.  Og hingað til er enginn af þeim sem hefur komið fengið staðfest jákvætt,“ segir Kristín.

Tvær nýjar öndunarvélar í pöntun

Eins og fram hefur komið eru þrjár öndunarvélar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og Kristín segir búið að panta tvær til viðbótar. Þá séu til svæfinagvélar sem megi nota sem öndunarvélar. Og hún telur þau vel undirbúin til að taka á móti fólki með kórónuveirusmit. „Á þessarri deild hérna er gert ráð fyrir allt að tíu einstaklingum. Ásamt því að við séum búin að útbúa hluta af skurðlækningadeild sem taki á móti grunuðum og sýktum einstaklingum. Þannig að við ættum ekki að lenda í vandræðum plásslega séð.“