Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sérhæft fyrirburaeftirlit lagt niður

27.11.2013 - 12:08
Mynd með færslu
 Mynd:
Sérhæft eftirlit með fyrirburum á vegum Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu verður lagt niður. Barnalæknir segist hafa verulegar áhyggjur af því.

Hjúkrunarfræðingur í hálfu starfi og barnalæknir í 20 prósent starfi hafa frá árinu 2006 sinnt sérhæfðu eftirliti með fyrirburum sem fæddust fyrir 32. viku meðgöngu og vógu minna en 1.500 grömm. Eftirlitið hefur farið fram í Heilsugæslunni í Mjódd. Fyrirburar eru í aukinni hættu á að dragast aftur úr jafnöldrum sínum í þroska, glíma við hegðunarvandamál og vanlíðan. Þessi þjónusta hefur verið viðbót við göngudeildareftirlit sem sinnt er á Landspítalanum. Frá og með 1. febrúar stendur til að leggja hana niður í núverandi mynd.

Katrín Davíðsdóttir, barnalæknir á Þroska- og hegðunarstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að foreldrar hafi verið mjög ánægðir með starfið. „Ég hef verulegar áhyggjur á því að þjónusta við þennan viðkvæma hóp, lítilla fyrirbura, skerðist og að mikil reynsla og þekking þeirra fagaðila sem hafa séð um þessa sérhæfðu þjónustu glatist. Ég hefði viljað sjá áframhald á þessu starfi.“

Katrín segir að allar rannsóknir styðji að sérhæfða og þverfaglega eftirfylgd þurfi með þessum hópi, jafnvel fram á unglingsárin.

Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri Heisugæslunnar, segir að eftirliti með fyrirburum verði framvegis sinnt á hverri heilsugæslustöð. Verið sé að skoða aðkomu barnalæknis að því og fái hjúkrunarfræðingar sem taka við þessum verkefnum, sérstaka fræðslu.