Sér lítinn mun á orkudrykkjum og Diet Coke

Mynd með færslu
 Mynd:
„Innihaldslýsing margra orkudrykkja sem markaðsettir eru sem heilsuvara er oft ekki ósvipuð innihaldslýsingu Diet Coke.“ Þetta segir íþróttanæringafræðingur. Ákveðnir hópar íþróttamanna geti þó haft gagn af koffíni. Forstöðumaður rannsóknarstofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala segir að amínósýrur hafi líklega lítil sem engin áhrif í því magni sem þær eru í drykkjunum.

Kostir og gallar koffíns

Margir eru háðir koffíni, vakna varla fyrr en eftir að hafa sötrað fyrsta kaffibollann eða skvett í sig einum orkudrykk. Koffín getur dregið úr þreytu og aukið einbeitingu en það hefur sínar dökku hliðar, getur leitt til svefnleysis og valdið skjálfta, svima og hjartsláttartruflunum. Sé þess neytt í miklum mæli getur það valdið kvíðatilfinningu og fólk getur beinlínis fengið koffíneitrun, innbyrði það allt of mikið. Matvælastofnun ráðleggur fullorðnu fólki sem ekki er ófrískt að neyta ekki meira en sem nemur 400 milligrömmum af koffíni á dag, það samsvarar fjórum 200 millilítra kaffibollum eða rúmlega tveimur dósum af orkudrykk með hámarkskoffínmagni. Barnshafandi konum er ráðlagt að neyta ekki meira en 200 milligramma og börn, ja Matvælastofnun telur einfaldlega óæskilegt að þau neyti koffíndrykkja yfirleitt enda eru þau viðkvæmari fyrir áhrifum koffíns. 

Mannhæðar háar stæður

Orkudrykkir sem innihalda koffín virðast vera í tísku ef marka má samfélagsmiðla já og mannhæðar háar stæður af þeim í stórmörkuðum. Drykkirnir eru oft markaðssettir á Facebook, Snapchat og Instagram í samstarfi við íþróttafólk og jafnvel haldnir sérstakir íþróttaviðburðir í tengslum við þá.

Á síðastliðnum árumhafa farið að koma á markað sterkari orkudrykkir, þeir sterkustu innihalda 180 milligrömm af koffíni í 330 millilítra dós. Álíka mikið og í 400 millilítrum af kaffi. Þessir orkudrykkir eru leyfisskyldir og bannaðir innan átján. 

Æði í framhaldsskólum

Ready for tasting.
 Mynd: flickr.com/photos/mckaysavage
Kaffibolli inniheldur um 100 mg af koffíni.

Nýlega kynnti landlæknisembættið niðurstöður nýrra lýðheilsuvísa. Af þeim má ráða að einhvers konar orkudrykkjaæði hafi gripið um sig í framhaldsskólum landsins á síðustu þremur árum. Árið 2016 sögðust 21,7% framhaldsskólanema fá sér orkudrykk á hverjum degi en í fyrra var hlutfallið komið upp í 54,6%. Rúmlega annar hver framhaldsskólanemi drekkur orkudrykki daglega. 

Orkudrykkjaþamb og svefnleysi íslenskra framhaldsskólanema virðist að einhverju leyti haldast í hendur. Könnun Rannsóknar og greiningar sýndi að tæp 80% þeirra framhaldsskólanema sem sváfu of lítið drukku fjóra orkudrykki á dag eða meira. 

Kona drekkur orkudrykk.
 Mynd: sanja gjenero - RGBStock
Í dag eru flestir orkudrykkir í dósum.

Óvissa um neyslu fullorðinna

Lítið er vitað um orkudrykkjaneyslu fullorðinna. Hólmfríður Þorgeirsdóttir, verkefnastjóri næringar hjá Landlæknisembættinu, vísar í niðurstöðu landskönnunar á mataræði frá 2010 til 2011, þá sögðust 13% fullorðinna stundum neyta orkudrykkja. Hún telur að neyslan hafi líklega aukist á síðustu árum í takt við aukið framboð. 

Ný landskönnun er í undirbúningi, og þar verða drykkirnir líklega flokkaðir eftir styrk koffíns. Þá telur Ingibjörg að gott væri að  kalla þá eitthvað annað en orkudrykki, fræðimönnum finnst það í raun rangefni enda oft litla sem enga orku í þeim að finna. Ingibjörg segir að betra sé að kalla þá örvandi drykki eða koffíndrykki.

Tvískinnungur í umræðunni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ársæll Þór Bjarnason, eigandi heildverslunarinnar Core sem flytur inn orkudrykkinn Nocco, segir í samtali við Spegilinn að hjá mörgum komi orkudrykkir sem innihalda koffín í staðinn fyrir kaffi, ungt fólk sé ekki endilega hrifið af römmu kaffibragði, það kjósi frekar ávaxtabragð. Þetta rímar við niðurstöður landskönnunar á mataræði frá 2011, fólk á aldrinum 31 til 60 ára drakk þá að meðaltali þrisvar sinnum meira kaffi en fólk undir þrítugu. Könnunin sýndi líka að almennt drukku 40% karla og 23% kvenna fjóra bolla á dag eða meira. Ársæli finnst ákveðins tvískinnungs gæta í umræðunni, mikið sé gert úr neyslu ungs fólks á koffínbættum orkudrykkjum en lítið sé rætt um kaffidrykkju þeirra eldri. 

Gervisykurinn geti haft slæm áhrif

Mynd með færslu
 Mynd: Agnes Þóra Árnadóttir
Agnes Þóra þjálfar og leiðbeinir íþróttafólki.

Orkudrykkirnir innihalda oft vítamín og amínósýrur, eru margir tengdir íþróttum og sumir sagðir bæta árangur. Gera þeir það? Og er hægt að segja að þeir séu á pari við kaffi? Spegillinn lagði þessa spurningu fyrir Agnesi Þóru Árnadóttur, íþróttanæringafræðing sem haldið hefur fyrirlestra fyrir íþróttafólk bæði hjá félögum og sérsamböndum. „Innihaldslýsingin er í raun og veru mjög svipuð og á Diet Coke og það eru ekki það mörg ár síðan leikfimikennarar voru með Diet Coke að kenna eróbik. Sem betur fer vitum við betur í dag. Gervisykurinn í þessum drykkjum hefur ekki endilega góð áhrif á meltingarveginn og kallar líka á meiri sykurlöngun. Auðvitað eru vissir hópar sem geta haft gagn af neyslu koffíns. Þá erum við aðallega að tala um íþróttamenn sem eru komnir gríðarlega langt og eru kannski bara að leita að síðasta 0,5 prósentinu. Fyrir almenning eru mestmegnis neikvæð áhrif af mikilli neyslu koffíns.“

Hvað varðar kaffið segist Agnes ekki vilja tala illa um það. Það sé frekar náttúrulegt, ekki svo mikið koffín í því og erfitt að drekka mikið af heitum drykk hratt. „Orkudrykkirnir eru aftur á móti mjög varhugaverðir, það er auðvelt að drekka þá hratt og þeir innihalda mikið af aukaefnum, gervisykur og svo þessar amínósýrur sem eru alls ekki slæmar en á þessu formi vitum við ekki hversu mikið við erum að fá af vítamínum og steinefnum og hvernig líkaminn eða meltingarvegurinn nýtir þessi efni.“ 

Hún segir að þessir drykkir séu skyndilausn sem fólk grípi oft til þegar það sé þreytt eða orkulaust. Það væri að hennar sögn árangursríkara að borða hollan mat og tryggja nægan svefn. 

Einn til tveir komi ekki að sök

Ingibjörg Gunnarsdóttir hjá rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræði segir að drykkirnir geti haft neikvæð áhrif séu þeir misnotaðir en að fyrir fullorðna komi einn til tveir fyrir hádegi í stað kaffis almennt ekki að sök nema einhverjir undirliggjandi sjúkdómar séu til staðar. Hættan við orkudrykkina sé aðallega fólgin í því hversu hratt sé hægt að drekka þá. Hún segir erfitt að segja til um hvort efnin í kaffi séu betri, það sé örugglega ekki búið að greina þau öll.

Segir amínósýrur varla upp í nös á ketti

Ingibjörg segir ólíklegt að amínósýrurnar í drykkjunum hafi neikvæð áhrif, þetta sé svo lítið magn, varla upp í nös á ketti. Að sama skapi sé ólíklegt að þær hafi jákvæð áhrif. Hún segir mjög misjafnt hvað drykkirnir innihaldi mikið magn vítamína og steinefna, yfirleitt sé það lítið en þó sé einn orkudrykkur á markaðnum, Moosejuice, sem inniheldur 10 þúsundfaldan þann skammt sem ráðlagt er að taka af B12 á dag. B12 er að vísu vatnsleysanlegt, og ekki hægt að innbyrða hættulega mikið af því.  Ingibjörg segir að það hafi verið birtar rannsóknir, fáar að vísu, sem bendi til þess að ofurskammtar af B12 stuðli að aukinni bólumyndun. Að öðru leyti séu áhrifin ekki skaðleg en það sé heldur ekkert sem kalli á að drykkurinn innihaldi svona mikið magn.

Telur að það sé glufa í kerfinu

Mynd með færslu
 Mynd:
Crossfit-æfing.

 

Dæmi eru um að Neytendastofa hafi bannað fullyrðingar um að neysla orkudrykkja hafi heilsufarsávinning í för með sér.
Í fyrra var heildsölunni Fitness Sport sem flytur inn orkudrykkinn Ripped bannað að fullyrða að efni í drykknum örvuðu fitubrennslu, héldu jafnvægi á blóðsykri og minnkuðu líkur á flensu, svo dæmi séu nefnd. 

Á vef Core, heildverslunarinnar sem flytur inn Nocco, segir að drykkirnir henti sérstaklega vel fyrir æfingar, á æfingum eða eftir þær. Þeir innihaldi amínósýrur sem stuðli að nýmyndun prótína og hindri vöðvaniðurbrot. Ingibjörg telur ólíklegt að prótínmagnið í drykkjum sé nógu mikið til að hafa áhrif á þessa þætti, þá sé prótínneysla Íslendinga almennt mikil fyrir. 
Fullyrðingin um að drykkurinn stuðli að nýmyndun prótína og hindri vöðvaniðurbrot standist þó skoðun því tæknilega séð uppfylli drykkurinn skilyrði Matvælastofnunar til að geta talist prótínrík vara. Til þess þurfa 20% af orkugildi vörunnar að koma úr prótínum en drykkirnir innihalda oftast bara örfáar kaloríur og því auðvelt að sýna fram á að hátt hlutfall orkunnar komi úr prótíni. Ingibjörg telur að skilgreina þurfi próteinríkar vörur upp á nýtt og leggja áherslu á fjölda gramma á hverja hundrað millilítra í stað prósenta því þarna sé ákveðin glufa fyrir sykurlausar vörur sem innihaldi litla orku. 

Ekki vilji allir ost fyrir æfingu

En hversu mikill munur er á Nocco og öðrum prótínríkum vörum, svo sem mjólk og hnetum. Í hundrað millilítrum af Nocco eru 0,9 til 1,8 grömm af prótíni, í samsvarandi magni af léttmjólk eru 3,4 og í hundrað grömmum af jarðhnetum eru 26. Þessar fæðutegundir innihalda líka amínósýruna BCAA en Í mjólk og hnetum er aftur á móti mun meiri orka en í Nocco. Utan á dósunum er að finna ráðleggingar um að takmarka neyslu við tvær til þrjár dósir á dag, þar segir líka að fjölbreytt mataræði sé grunnur að heilbrigðum lífstíl. Ársæll eigandi heildsölunnar Core segir að fólk sé sjaldnast til í að fá sé ostbita fyrir æfingar, drykkurinn henti lífsstíl nútímafólks sem vilji grípa eitthvað með sér, innihaldi nauðsynlegar amínósýrur og sé hugsaður sem viðbót við heilbrigt mataræði. 

Lumar þú á gögnum eða upplýsingum um gagnsemi eða skaðsemi orkudrykkja? Spegillinn þiggur ábendingar á netfangið [email protected]

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi