Sendiherrastöðum fækkað og þær auglýstar til umsóknar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson/RÚV - RÚV
Nái frumvarp utanríkisráðherra fram að ganga verða sendiherrastöður  framvegis auglýstar til umsóknar. Ráðherra boðar fækkun sendiherra í frumvarpinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis og þróunarsamvinnuráðherra skrifaði aðsenda grein í Morgunblaðið í morgun. Þar kynnir hann hugmyndir um breytingar á fyrirkomulagi við skipan sendiherra.

Til þessa hefur ráðherra haft frjálsar hendur við skipan sendiherra og eru engar sérstakar hæfniskröfur gerðar til sendiherra umfram það sem almennt tíðkast og eru embætti þeirra undanskilin auglýsingaskyldu. Guðlaugur segir að algengast sé að þeir sem gegni stöðu sendiherra hafi gegnt störfum innan utanríkisþjónustunnar. Þó hafi einnig verið brugðið á það ráð að skipa sendiherra sem ekki komi úr röðum utanríkisþjónustunnar. Þeir hafi byggt þekkingu sína, tengsl á alþjóðavísu á öðrum sviðum, svo sem stjórnmálum eða viðskiptum. Sendiherrum hefur fjölgað jafnt og þétt seinustu ár og segir ráðherra að fjöldi þeirra samræmist illa umfangi og verkefnum utanríkisþjónustunnar. Þetta hafi einnig leitt til þess að framgangur yngri starfsmanna hafi reynst hægari en ella enda margir um hituna þegar fjórðungur starfsmanna utanríkisþjónustunnar gegni stjórnendastöðu.

Þak sett á fjölda sendiherra hverju sinni

Í dag eru sendiherrar 36 talsins. Í byrjun árs 2017 voru þeir 40. Breytingar samkvæmt frumvarpinu eru í grófum dráttum fjórþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að sett verði þak á fjölda sendiherra á hverjum tíma. Fjöldinn taki mið af fjölda sendiskrifstofa sem utanríkisþjónustan starfrækir að fimmtungi viðbættum. Sendiskrifstofurnar eru í dag 25 og því verður hámarksfjöldi sendiherra 30. Guðlaugur Þór segir að þetta þýði að enginn sendiherra verði skipaður fyrr en þeim hafi verið fækkað niður í 30 miðað við óbreyttan fjölda sendiskrifstofa.

Stöður sendiherra auglýstar og hæfniskröfur settar

Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um skyldu til að auglýsa laus embætti sendiherra og til umsækjenda verði gert að uppfylla lögákveðin hæfnisskilyrði. Frumvarpið gerir ráð fyrir að umsækjendur hafi lokið háskólaprófi og hafi reynslu af alþjóða- og utanríkismálum. Guðlaugur segir að með þessari breytingu sköpuð umgjörð utan um embætti sendiherra sem ætla megi að komi einkum úr röðum hæfustu starfsmanna utanríkisþjónustunnar. 
„Slíkt er nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika og festu í starfsemi utanríkisþjónustunnar og búa hana undir að takast á við áskoranir til framtíðar“ segir Guðlaugur.

Ráðherra getur skipað sendiherra tímabundið

Í þriðja lagi er lagt til að ráðherra sé heimilt að skipa einstakling tímabundið til allt að fimm ára sem sendiherra án þess að starfið sé auglýst. Slíka skipun sé þó óheimilt að framlengja eða né senda viðkomandi annað til að gegna sendiherrastöðu. Fjöldi slíkra skammtímaskipanna má ekki vera meiri en fimmtungur af skipuðum sendiherrum.  Guðlaugur segir að með þessu fyrirkomulagi sé ráðherra áfram fært að leita út fyrir raðir fastra starfsmanna utanríkisþjónustunnar eftir sendiherrum. „ Með þessu móti verður þeirri heimild, sem nú er ótakmörkuð, settar málefnalegar skorður“ segir Guðlaugur Þór.

Ekki verið skipaður sendiherra í þrjú ár

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að ráðherra geti tímabundið sett lægra setta starfsmenn eða sendifulltrúa innan utanríkisþjónustunnar í embætti sendiherra. Í þeim hópi eru að jafnaði þeir sem eiga að baki langan feril innan utanríkisþjónustunnar, án þess að hafa gegnt stöðu sendiherra. Guðlaugur segir að með þessu móti sé unnt að nýta betur starfskrafta sendifulltrúa og veita yngra fólki í utanríkisþjónustunni aukin tækifæri á framgangi í starfi.  „Vegna þess hvernig þessi hópur er saman settur eykur þessi breyting jafnframt á möguleika kvenna til að fá framgang með þessum hætti og þar með til að ná fram auknu jafnrétti kynjanna í röðum þjónustunnar,“ segir Guðlaugur.

Ekki hefur verið skipaður nýr sendiherra seinustu þrjú ár. Guðlaugur segir það einsdæmi í seinni tíma sögu utanríkisþjónustunnar að svo langur tími líði án skipunar sendiherra. „Hefði ég haldið áfram á sömu braut og flestir forvera minna þá væri heildarfjöldi sendiherra nú kominn vel á fimmta tuginn. Í mínum huga er ljóst að óbreytt fyrirkomulag stenst ekki lengur,“ segir Guðlaugur Þór.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi