Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Semur leiðarstef um ljósmyndasöguna fyrir Metropolitan

Mynd:  / 

Semur leiðarstef um ljósmyndasöguna fyrir Metropolitan

24.03.2020 - 10:49

Höfundar

Tónlist Davíðs Þórs Jónssonar leiðir gesti Metropolitan-safnsins í New York á milli margra af helstu ljósmyndum sögunnar á sýningu sem var opnuð í mars.

Sýningin heitir Photography's Last Century og þar má sjá ljósmyndir frá síðustu öld og fram á okkar daga. Sýningin byggist á gjöf hjónanna Ann Tennenbaum og Thomas H. Lee til hinnar tiltölulega nýstofnuðu ljósmyndadeildar Metropolitan-safnsins. „Þetta er allt frá Cindy Sherman, yfir í Robert Frank, Paul Strand, Man Ray, Andy Warhol, Edward Weston, Andreas Gursky og Georgia O'Keefe,“ segir Davíð Þór Jónsson sem samdi tónlistina sem þjónar leiðsagnarhlutverki á sýningunni.

Davíð Þór segir í samtali við Pétur Grétarsson í Hátalaranum á Rás 1 að verkefnið hafi komið á hans borð í gegnum vináttu hans við Ragnar Kjartansson myndlistarmann og samstarf þeirra við Roland Augustin gallerístjórnanda. „Það er þeim að einhverju leyti að kenna að þetta var borið á borð.“

Davíð Þór flaug í framhaldi af því út á fund með Ann Tennenbaum. „Hana langaði ekki að hafa týpíska leiðsögn, eða „audio guide“, þar sem þú labbar fyrir framan ljósmyndaverk, ýtir á „play“ og það kemur romsa af upplýsingum,“ segir hann og bætir við að hún hafi haft fleiri hugmyndir um hvernig verkefnið ætti ekki að vera heldur en hvernig það ætti að vera. „Hún var bara forvitin að sjá hvað kæmi. Hún leitaði til kunningja og þetta lá beint við að hluta til því hún er aðdáandi verka Ragnars.“

Sýningin er í þremur litlum sölum í eldri hluta Metropolitan-safnsins. „Sem er mjög notalegt. Ekkert mikilmennskubrjálæði þar og mikil kyrrð.“ Í upphafi hafði Davíð Þór hugsað sér að tónlistin myndaði þriggja klukkustunda kúrfu en þegar hann hafði heimsótt safnið og séð salarkynnin sá hann að það gengi ekki upp og tónlistin þyrfti að vera um 50 mínútur. Tilfinningin var sú að gestir sýningarinnar mættu heyra hluta tónlistarinnar aftur meðan þeir virtu myndirnar fyrir sér. „Ég er að vona að fólk hlaupi ekki þarna í gegn eftir hálftíma. Þetta er eins og við værum að spila tónleika og við sæjum fólk fara út eftir 40 mínútur, en uppáhalds parturinn okkar er eftir einn og hálfan tíma.“

Þetta eru margar myndir – 60 talsins – og leist Davíð Þór alls ekki á blikuna í fyrstu. „Það var ógjörningur að hugsa um það per se, í upphafi var þetta ógjörningur,“ segir hann, fjöldinn hafi verið það mikill að hann hafi átt erfitt með að sjá fyrir sér hvernig þetta gæti orðið að veruleika. En það hafi að lokum sést til sólar. „Svo fór þetta að kalla á mann. Verkið kom bara náttúrulega.“

Rætt var við Davíð Þór Jónsson um aðkomu hans að sýningunni Photography's Last Century í Hátalaranum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það er ekkert gaman að þessu“

Hönnun

Svanskjóll Bjarkar til sýnis á Met Gala

Tónlist

Davíð Þór hlýtur tónskáldaverðlaun

Kvikmyndir

Ný tónlist við botnlaust 100 ára hugmyndaflug