Sýningin heitir Photography's Last Century og þar má sjá ljósmyndir frá síðustu öld og fram á okkar daga. Sýningin byggist á gjöf hjónanna Ann Tennenbaum og Thomas H. Lee til hinnar tiltölulega nýstofnuðu ljósmyndadeildar Metropolitan-safnsins. „Þetta er allt frá Cindy Sherman, yfir í Robert Frank, Paul Strand, Man Ray, Andy Warhol, Edward Weston, Andreas Gursky og Georgia O'Keefe,“ segir Davíð Þór Jónsson sem samdi tónlistina sem þjónar leiðsagnarhlutverki á sýningunni.
Davíð Þór segir í samtali við Pétur Grétarsson í Hátalaranum á Rás 1 að verkefnið hafi komið á hans borð í gegnum vináttu hans við Ragnar Kjartansson myndlistarmann og samstarf þeirra við Roland Augustin gallerístjórnanda. „Það er þeim að einhverju leyti að kenna að þetta var borið á borð.“
Davíð Þór flaug í framhaldi af því út á fund með Ann Tennenbaum. „Hana langaði ekki að hafa týpíska leiðsögn, eða „audio guide“, þar sem þú labbar fyrir framan ljósmyndaverk, ýtir á „play“ og það kemur romsa af upplýsingum,“ segir hann og bætir við að hún hafi haft fleiri hugmyndir um hvernig verkefnið ætti ekki að vera heldur en hvernig það ætti að vera. „Hún var bara forvitin að sjá hvað kæmi. Hún leitaði til kunningja og þetta lá beint við að hluta til því hún er aðdáandi verka Ragnars.“