Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Seltjarnarnes vill selja Lækningaminjasafn

06.12.2018 - 11:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Seltjarnarnesbær hefur sett á sölu húsnæði sem ætlað var undir starfsemi Lækningaminjasafns. Óskað er eftir tilboðum í húsið. Ríkið og Seltjarnarnesbær hafa staðið í deilum vegna fjármögnunar á húsinu. Málið er komið fyrir dómstóla og verður aðalmeðferð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 14.janúar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur reynt að innheimta af bænum fé sem ríkið lagði til safnsins, 75 milljónir. Seltjarnarnesbær telur að krafa ríkisins eigi ekki rétt á sér. 

Hlynur Jónsson lögmaður fer með málið fyrir hönd ríkisins. Hann hafði ekki séð auglýsinguna þegar fréttastofa náði tali af honum. Hann segir að fyrirtöku í málinu sé lokið og allri gagnaöflun. Málið verði flutt og dómtekið 14.janúar. Dómari tekur sér þá frest til að kveða upp dóm og hefur fjórar vikur til þess. Hlynur segir að það eigi eftir að koma í ljós hvort sala á húsinu hafi áhrif í dómsmálinu. 

Leitað tilboða í húsið

 

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, sagði í fréttum RÚV að áætlað væri að kostnaður við að klára húsið væri á milli 400 og 500 milljóna króna. Þá peninga ætti bærinn ekki til. 

Í auglýsingu Seltjarnarnesbæjar kemur fram að leitað er tilboða í húsið. Skilyrði eru sett fyrir því hvers konar starfsemi verður í húsinu, það verður í að vera í samræmi við deiliskipulag. 

Svæðið er skilgreint sem samfélagsþjónustusvæði en þarna eru Nesstofa, Lyfjafræðisafnið og Urtagarðurinn. Skammt frá verður hjúkrunarheimili sem nú er verið að klára að byggja og aðeins fjær eru hafnar framkvæmdir á Bygggarðasvæðinu þar sem íbúabyggð rís í stað iðnaðarhúsnæðis. 

Áratugur frá fyrstu skóflustungu

Árið 2007 var gerður samningur milli ríkisins, bæjarins, Þjóðminjasafnsins og tveggja læknafélaga um byggingu og rekstur Læknaminjasafns í húsinu, og var fyrsta skóflustunga tekin í september 2008. Ári seinna var ljóst að byggingarkostnaður hafði verið verulega vanmetinn og bærinn taldi forsendur samningsins brostnar, segir í skýrslu ríkisendurskoðunar. Árið 2012 sagði bærinn sig frá samningnum og lagði safnið niður. Húsið hefur aldrei verið klárað og eru átta ár síðan það var gert fokhelt.

Ásdís Helga Ágústsdóttir og Sólveig Berg hjá arkitektastofunni Yrki hönnuðu húsið. Þær sögðu í Speglinum í nóvember að það væri sárt að sjá húsið drabbast niður.