Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Selja Keldnaland til að fjármagna samgöngur

Mynd: Sunna Valgerðardóttir / RÚV
Ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ætla á næstu fimmtán árum að gera mestu samgöngubætur í sögunni, samkvæmt samkomulagi sem var undirritað í dag. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar verður samtals 120 milljarðar króna. Meðal framkvæmda er að Sundabraut verður lögð og hlutar Miklubrautar og Sæbrautar verða settir í stokk.

Ríkissjóður ætlar að leggja þessu verkefni til 45 milljarða króna, sveitafélögin leggja til 15 milljarða en 60 milljarðar verða fjármagnaðir á annan hátt. Stofnað verður nýtt félag í eigu ríkis og sveitarfélaga um verkefnið sem fær Keldnaland að eign frá ríkinu og verður landið selt til að fjármagna framkvæmdirnar

Sigurður Ing Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, var á meðal þeirra sem tóku til máls á kynningarfundi þar sem samkomulagið var undirritað. Hann sagðist búast við því að þær samgöngubætur sem stefnt er að eigi að geta stytt ferðatíma á dag um hálftíma og allt upp í klukkustund. „Og hver vill ekki eiga þann tima heima með fjölskyldunni eða í tómstundum?“ spurði ráðherrann.

Á fundinum var birt myndskeið þar sem fyrirhugaðar framkvæmdir eru kynntar. Það má horfa á myndskeiðið með því að smella á myndina hér að ofan.