Selfoss vann Suðurlandsslaginn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Selfoss vann Suðurlandsslaginn

09.10.2019 - 20:28
Selfyssingar unnu í kvöld magnaðan sigur á ÍBV í úrvalsdeild karla í handknattleik, leikið var í Vestmannaeyjum.

ÍBV var taplaust fyrir leikinn og Selfoss þremur stigum á eftir strax eftir fjóra leiki í Íslandsmótinu. Leikurinn byrjaði vel fyrir Selfyssinga sem náðu góðri forystu í fyrri hálfleik og voru fjórum mörkum yfir þegar mest lét. ÍBV skoraði þó síðustu tvö mörk hálfleiksins og staðan að honum loknum 15-13 Selfossi í vil.

Í seinni hálfleik var sömu sögu að segja, Selfoss byrjaði töluvert betur og komst í 26-20 þegar rúmar fimmtán mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það tók við algjörlega stórkostlegur kafli og ÍBV tókst að jafna leikinn í 28-28 þegar þrjár mínútur voru eftir. Liðin skiptust á mörkum allt þar til komið var í næst síðustu sókn leiksins, þá geystust Selfyssingar fram völlinn og fengu víti. Hergeir Grímsson skoraði af öryggi úr vítinu og þar við sat. Lokatölur 30-29 og fyrsti tapleikur ÍBV staðreynd.