Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segjast una niðurstöðu héraðsdóms illa

03.03.2020 - 19:37
Mynd með færslu
Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur. Mynd:
Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR) íhugar að áfrýja dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær þar sem félaginu var gert að greiða Glitni HoldCo tvo milljarða króna vegna afleiðusamninga sem gerðir voru í aðdraganda bankahrunsins.

Afleiðusamningana gerði ÚR, sem þá hét Brim, við Glitni í því skyni að verja fyrirtækið fyrir gengis- og vaxtaáhættu. Tekist var á um 31 afleiðusamning en ÚR neitaði að gera þá upp eftir að Glitnir féll. Dómsmál vegna samninganna hefur staðið yfir frá árinu 2012.

Vildu frávísun frá dómi

Í tilkynningu frá ÚR, sem framkvæmdastjórinn Runólfur Viðar Guðmundsson skrifar undir, segir að ÚR skoði nú stöðu sína í ljósi dómsins. Telur félagið að þrotabú Glitnis sé ekki aðili málsins þar sem það hafi afsalað sér kröfunum með stöðugleikasamkomulagi við íslenska ríkið í desember árið 2015.

Segir í yfirlýsingunni að ársreikningar Glitnis frá árunum 2015 til 2019 staðfesti að umræddar kröfur séu ekki á meðal eigna þrotabúsins heldur ríkissjóðs. Því hafi átt að vísa málinu frá.

Framkvæmdastjóri hjá SÍ sagður óhlýðnast dómara

Enn fremur segir að ÚR hafi óskað eftir að stöðugleikasamningurinn yrði gerður opinber og lagður fyrir dóminn. Framkvæmdastjóri hjá Seðlabanka Íslands hafi verið kallaður fyrir dóminn en hann hafi „óhlýðnast dómara“ eins og það er orðað í yfirlýsingu og neitað að mæta með samninginn.

„ÚR unir illa úrskurði héraðsdóms sérstaklega í ljósi þess að þrotabú Glitnis og fulltrúar hins opinbera komast undan kröfu um að sanna aðild sína að málinu. Það skýtur skökku við þegar gerðar eru auknar kröfur af almenningi og hinu opinbera til einkaaðila um gagnsæi að opinberir aðilar haldi kyrfilega leyndum samningum sem þeir gera við þrotabú í eigu erlendra huldusjóða og hindri þannig framgang eðlilegrar réttvísi hér á landi,“ segir í yfirlýsingunni.