Segjast hafa náð stjórn á útbreiðslu COVID-19

17.02.2020 - 00:22
epa08221410 A security guard attempts to block the camera with his hand in front of a plastic tent set up to disinfect people entering a residential compound in Beijing, China, 16 February 2020. The disease caused by the novel coronavirus (SARS-CoV-2) has been officially named COVID-19 by the World Health Organization (WHO). The outbreak, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 1,669 people with over 69,000 infected worldwide, mostly in China.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Hundrað manns létust af völdum kórónaveirunnar COVID-19 í Hubei-héraði í Kína í gær. Eru þá hátt í 1.800 látnir úr sjúkdómnum. Nærri tvö þúsund tilfelli greindust í gær, sem þýðir að yfir 71 þúsund tilfelli hafa greinst á heimsvísu.

Um tíu þúsund hafa náð sér af sjúkdómnum samkvæmt vef Johns Hopkins háskólans í Bandaríkjunum.

Langflestir þeirra sem hafa smitast eru í Hubei-héraði í Kína. Veiran greindist fyrst í borginni Wuhan, þeirri stærstu í héraðinu. Utan héraðsins hefur tilfellum farið fækkandi með hverjum deginum að sögn kínverskra stjórnvalda. Talsmaður heilbrigðisyfirvalda í Kína segir það sýna að þau hafi náð tökum á útbreiðslu veirunnar.

Tedros ekki jafn sannfærður

Alþjóðlegir sérfræðingar eru komnir til Peking þar sem þeir halda fundi með starfsbræðrum sínum í Kína. Tedros Adhanom Ghebreyesus, formaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, er ekki alveg tilbúinn að taka undir yfirlýsingu heilbrigðisyfirvalda í Kína um að útbreiðslan fari minnkandi. Hann varaði þvert á móti við því að það væri ómögulegt að segja til um hvert framhaldið yrði.