Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja stuðninginn ómetanlegan

02.02.2020 - 19:56
Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd / RÚV
Dómsmálaráðherra hefur frestað brottvísun Kahn-fjölskyldunnar, sem átti að vísa úr landi á morgun. Sautján þúsund undirskriftir söfnuðust þar sem brottvísuninni var mótmælt. Fjölskyldan fékk endanlega niðurstöðu í máli sínu innan 18 mánaða, en stytta á hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 í 16.

Til stóð að vísa Muhammed, sem er sjö ára, og foreldrum hans úr landi á morgun. Þau hafa verið hér í 26 mánuði. Muhammed talar reiprennandi íslensku og er í fyrsta bekk í Vesturbæjarskóla, þar sem var haldinn fjölmennur fundur til stuðnings fjölskyldunni í dag.

Afhentu 17 þúsund undirskriftir

Foreldrar barna sem eru í bekk með Muhammed stóðu fyrir fundinum. Hverju haldið þið að þessi viðburður skili? „Vonandi réttlæti að hann verði á landinu hans fjölskylda, þau eiga að vera hér á landinu og ekki annars staðar,“ segir Sara Jónsdóttir.

„Og að þessar breytingar verði til frambúðar að þetta verði til þess að kerfið breytist,“ segir Ólöf Helga Jakobsdóttir.

Skólafélagar Muhammeds voru á einu máli. „Ef það á að senda hann burt það er auðvitað ekki í lagi,“ segja Dagur og Björn Steinssynir.

Af hverju eruð þið komnir hingað? „Til að kveðja Muhammed. Ég gaf honum pakka. Ef hann verður sendur úr landi þá myndum við kannski verða leiðir,“ segja segja Alexander Guðjónsson, Steinn Úlfur Sturluson og Bjartur Burgess.

Eftir stuðningsfundinn gekk fólk fylktu liði með um 17 þúsund undirskriftir að dómsmálaráðuneytinu til að knýja á um að hætt yrði við brottvísun, þar sem upplýsingafulltrúi ráðuneytisins tók við þeim.

„Auðvitað er þetta flókið, við skiljum það vel. Við erum bara venjulegir foreldrar, við erum að hjálpa vinum okkar. Þjóðin virðist vera mjög ákveðin í því að hún vill breyta einhverju,“ segir Valur Grettisson, einn skipuleggjanda.

Hámarksmálsmeðferðartími styttur í 16 mánuði

Stuttu seinna kom tilkynning frá ráðuneytinu þar sem var tilkynnt var um styttingu hámarkstíma málsmeðferðar úr 18 mánuðum í 16, þar sem börn eiga í hlut. Brottvísun barnafjölskyldna sem hafa beðið lengur verði því frestað.

Khan-fjölskyldan fékk endanlegt svar innan 18 mánaða en fengu frest til að fara sjálf úr landi. Samkvæmt lögum er hægt að veita þeim dvalarleyfi af mannúðarsjónarmiðum sem hafa beðið lengur en 18 mánuði. „Takk fyrir að styðja okkur. Það er ómetanlegt. Takk,“ segir Faisal Khan.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV