Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja Heimavelli hafa staðið við skilyrði kaupsamnings

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Íbúðalánasjóður segir að Heimavellir stóðu við skilyrði um útleigu við kaup á íbúðum af sjóðnum á Akranesi 2015. Sala leigufélagsins á íbúðum á Akranesi um miðjan janúar brjóti því ekki í bága við kaupsamninginn 2015.

Heimavellir keyptu 18 íbúðir á Akranesi af Íbúðalánasjóði, nú ÍL-sjóðs, á vormánuðum 2015. Í svari ÍL-sjóðs við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að Heimavellir hafi fengið eins og hálfs prósents afslátt af kaupverði við sölu með því skilyrði að íbúðirnar yrðu enn í útleigu fyrsta desember sama ár. Í svarinu kemur einnig fram að gefa hefði þurft talsvert meiri afslátt ef skilyrði hefðu átt að gilda til lengri tíma.

Heimavellir seldu íbúðir sínar að Holtsflöt fjögur og Eyrarflöt tvö á Akranesi nú í byrjun árs en þær höfðu allar verið í útleigu frá 2015 eða lengur. Salan var liður í aðgerðum félagsins til þess að losa sig við leiguíbúðir sem uppfylltu ekki arðsemiskröfu þess. Fyrir vikið þurfa 26 fjölskyldur á Akranesi nú að leita að nýju heimili, margar þeirra á allra næstu vikum.

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar og formaður Verkalýðsfélags Akraness hafa gagnrýnt þennan gjörning Heimavalla. Meðal annars sé salan ekki í samræmi við forsendurnar fyrir kaupum Heimavalla á íbúðunum á sínum tíma. Samkvæmt svari Íbúðalánasjóðs er það ekki rétt.

Jafnframt kemur fram í svari ÍL-sjóðs að einungis íbúðir að Holtsflöt fjögur voru í eigu sjóðsins. Eyrarflöt tvö var aldrei í eigu ÍL-sjóðs, heldur félagsins Leiguliðar sem síðar varð að Heimavöllum.

Akraneskaupstaður efnir til fundar með leigjendum íbúðanna í dag ásamt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og leigufélaginu Bríet til þess að kynna mögulegar lausnir á fyrirséðu heimilisleysi fjölskyldnanna.