Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja háhýsi geta takmarkað nýtingu Akureyrarflugvallar

11.11.2019 - 16:16
default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Isavia telur að ellefu hæða íbúðablokk á Oddeyri á Akureyri kunni að takmarka nýtingu Akureyrarflugvallar. Í umsögn sem Isavia sendi Akureyrarbæ og fréttastofa hefur undir höndum gerir fyrirtækið nokkrar athugasemdir við skipulagslýsinguna.

Hæð húsanna hefur vakið upp spurningar

Í síðasta mánuði samþykkti bæjarstjórn Akureyrar fyrsta skrefið í því að breyta aðalskipulagi svo heimilt verði að byggja allt að ellefu hæða fjölbýlishús á svæðinu. Hæð húsanna hefur vakið upp spurningar um hvort notagildi Akureyrarflugvallar gæti minnkað. Isavia var því beðið um umsögn um málið.

Hindrunarfletir í rúmlega 40 metra hæð

Í umsögninni segir að svæðið sé viðkvæmt en svonefndir hindrunarfletir eru samkvæmt skipulagsreglum á umræddu svæði í rúmlega 40 metra hæð. „Blokk sem er 11 hæðir er því farin að nálgast hindrunarflöt verulega þar sem má ætla að hún yrði um 37 metrar á hæð. Þetta svæði er viðkvæmara en ella þar sem staðsetning er nokkurn veginn í beinni stefnu út frá flugbraut flugvallarins,“ segir í umsögninni. 

Takmarka nýtingu

Þá segir einnig að byggingar í þessari hæð og á þessum stað geti fælt áhugasama flugrekstraraðila frá því að velja Akureyrarflugvöll. „Háar byggingar og önnur mannvirki í flugstefnu til og frá flugbraut eru meðal þeirra atriða sem flugrekstraraðilar skoða vel við mat á flugvöllum, enda hefur það áhrif á lágmörk og þjónustutíma þar sem veður geta verið válynd. Byggingar eins og um ræðir í skipulagslýsingunni kunna því að auka á takmarkanir á nýtingu flugvallarins.“

Huga þarf að hljóðvist

Í umsögn Isavia segir einnig að huga þurfi vel að hljóðvist íbúðabygginga á svæðinu en þar er flugtakshæð um 75-90 metrar. „Því er fjarlægð þess frá byggingum ekki mjög mikil og loftförum fylgir óhjákvæmilega töluverður hávaði sem taka þarf tillit til við skipulag. Í þessu tilliti má nefna að slík nálægð gæti með tíð og tíma orðið til þess að kröfur komi fram um takmörkun á flugi á ákveðnum tíma sólarhringsins sem gæti dregið úr notkunargildi flugvallarins.“

Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri, allt að ellefu hæða hús.
Hugmyndir að uppbyggingu á Oddeyri á Akureyri.