Segja gróflega vegið að starfsheiðri sínum

02.12.2019 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness lýsa vanþóknun sinni á ummælum og vinnubrögðum bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar/Neslistans á síðasta bæjarstjórnarfundi. Þeir segja gróflega vegið að heilindum sínum, fagmennsku og starfsheiðri. Þetta kemur fram í ályktun kennarafundar sem haldinn var í Valhúsaskóla í morgun. Kennsla var felld niður í dag því að kennarar og stjórnendur treystu sér ekki til að taka á móti börnum eftir gagnrýni sem þau fengu á bæjarstjórnarfundi.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins bókaði á síðasta fundi að hann lýsti harmi vegna deilna um námsmat í Valhúsaskóla og bað foreldra og nemendur afsökunar á tilfinningalegu tjóni og óþægindum sem þær hefðu haft í för með sér. Foreldrar kvörtuðu undan einkunnagjöf og töldu námsmat ekki í samræmi við lög. Í greinargerð utanaðkomandi skólastjóra var bent á hluti sem betur mættu fara. Fulltrúi Viðreisnar/Neslista sagði þetta falleinkunn fyrir skólann.

Til í gagnrýni en ekki niðurrif

Kennarar og stjórnendur Grunnskóla Seltjarnarnes lýsa vanþóknun sinni á umræðu á bæjarstjórnarfundi og bókunum í fundargerð. Þeir segjast alltaf hafa verið tilbúnir að vinna með faglega gagnrýni en að fullyrðingarnar sem komu fram á fundinum og í fundargerð hafi þann eina tilgang að grafa undan skólastarfi og trausti til skólans.

Ályktun kennarafundar er svohljóðandi:

„Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness lýsa vanþóknun á þeim ummælum og vinnubrögðum, meirihlutans og Viðreisnar/Neslistans, sem fram komu í beinni útsendingu frá bæjarstjórnarfundi 27. nóvember
síðastliðinn. Þar var gróflega vegið að heilindum, fagmennsku og starfsheiðri stjórnenda og kennara skólans. Stjórnendur og kennarar Grunnskóla Seltjarnarness hafa alltaf verið tilbúnir til að vinna með faglega gagnrýni. Þær fullyrðingar sem fram komu á fundinum og í fundargerð hafa þann eina tilgang að grafa undan skólastarfi og trausti til skólasamfélagsins.“

Bæjarfulltrúar benda á menntamálaráðuneytið

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýstu fullu trausti til skólans og stjórnenda hans í yfirlýsingu í morgun. Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi flokksins, sagði í hádegisfréttum að unnið væri að lausn mála en sagði að ekki hefðu borist nógu góðar leiðbeiningar frá menntamálaráðuneytinu um hvernig standa ætti að námsmati. Því hefði hver skóli þurft að finna út úr því með sínum hætti og þá gætu komið upp árekstrar.

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista, kvaðst bera fullt traust til skólans en að við námsmat hefði hann fengið falleinkunn. Það væri þó ekki endir alls heldur til marks um að skólafólk þyrfti að bæta þann hluta starfsins. Hann kvaðst bera fullt traust til skólans.

Ekki hefur náðst í Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, vegna málsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi