Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segja enn verið að innheimta ólögleg smálán

31.07.2019 - 12:56
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Peningar
Neytendasamtökin segjast enn fá ábendingar um að ólögleg smálán séu í innheimtu. Stjórnandi Almennrar innheimtu, sem sér um að innheimta lánin, lýsti því yfir í samtali við fréttastofu á föstudaginn að lán sem bera meira en 53,75 prósenta vexti yrðu ekki innheimt. Neytendasamtökin segja að þetta sé ekki rétt.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Neytendasamtakanna. Þar kemur fram að þrátt fyrir fullyrðingar Gísla Kr. Björnssonar, stjórnanda og eiganda Almennrar innheimtu ehf., séu ólögleg lán enn innheimt og lántakar krafðir um greiðslur ólögmætra vaxta. Auk þess sé vanskilakostnaður afar hár. 

Í tilkynningunni segir einnig að Almenn innheimta gefi sér allt að 90 daga til þess að afhenda lántökum sundurliðun yfir kröfurnar. Neytendasamtökin segja að ef fólk fengi sundurliðun í hendurnar áður en það greiðir kröfurnar, myndi það að öllum líkindum sjá að þær séu ólögmætar og hafi nú þegar verið greiddar að fullu.

Í tilkynningu sem Neytendasamtökin sendu fréttastofu segjast þau hafa dæmi undir höndum þar sem lántakandi var búinn að greiða 750.000 krónum meira en honum bar og var krafinn um 400.000 til viðbótar. Þegar hann gerði kröfu á Almenna innheimtu um endurgreiðslu felldi fyrirtækið kröfu sína niður.

Gísli Kr. Björnsson, eigandi Almennrar innheimtu, sagðist nýlega hafa frétt af tilkynningu Neytendasamtakanna þegar fréttastofa náði tali af honum og sagðist vera að skoða það sem þar kemur fram. Að hans sögn eru allar kröfur sem eru með ólöglegum vöxtum teknar úr innheimtu um leið og þeirra verður vart. 

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV