Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segja brottvísun eftir um tvö ár líkjast martröð

01.02.2020 - 21:05
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Um sjö þúsund hafa skorað á stjórnvöld að hætta við brottvísun pakistanskrar fjölskyldu sem hefur dvalið hér á landi í meira en tvö ár. Fjölskyldufaðirinn segir átakanlegt að vera vísað úr landi eftir svo langan tíma.

Muhammed, er sjö ára í dag. Hann er í fyrsta bekk í Vesturbæjarskóla og talar reiprennandi íslensku. „Við sjáum að hann getur öðlast betra líf hér. Hann var fjögurra ára og tíu mánaða þegar hann kom hingað. Hann lítur svo á að hér eigi hann heima og hér eru vinir hans,“ segja foreldrar hans, Faisal og Niha Khan. Hann segir sjálfur að honum þyki mjög gaman að búa á Íslandi.

Fjölskyldan óskaði eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi í lok ársins 2017. „Við höfum verið hér í 26 mánuði. Við höfum ekkert fengið að gera af því við höfum ekki fengið kennitölu,“ segja þau.

Beiðni þeirra hefur verið synjað og til stendur að flytja þau úr landi á mánudag. Þúsundir hafa skrifað undir áskorun til íslenskra stjórnvalda um að hætta við brottvísun fjölskyldunnar.

Fengu svar innan 18 mánaða

Endurupptökubeiðni hefur verið send í þeirra nafni samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum. Talsmaður þeirra hjá rauða krossinum gagnrýnir að það sé ekkert ákvæði í útlendingalögum sem kemur í veg fyrir að fólk bíði mánuðum eða árum saman eftir flutningi. 

Útlendingastofnun segir að umsókn fjölskyldunnar hafi borist á annasömum tíma hjá stofnuninni. Endanleg niðurstaða lá fyrir innan 18 mánaða. Þau hafi fengið frest til að fara sjálf heim og áttu kost á aðstoð frá alþjóðlegu flutningastofnuninni en nýtt sér hvorugt. Í málum sem varða börn sé ávallt lagt mat á það hvort hagsmunum þeirra sé stefnt í hættu.

Þau óttast um líf sitt þurfi þau að fara aftur. Meðal annars vegna þess að þau giftust í óþökk fjölskyldunnar. „Þetta er hörmung. Líkist martröð. Ég er enn að glíma við þunglyndi. Ég get ekki sofið eða matast,“ segir Niha Khan.

„Ég er líka alveg dofinn. Ég vonaðist eftir að eitthvað got kæmi út úr þessu því við höfum verið hér svo lengi. Þetta er virkilega sorglegt,“ segir Faisal Khan.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Muhammed Khan.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV