Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segja að ríkisstjórnin sé rúin trausti

30.03.2016 - 19:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnarandstaðan á Alþingi ætlar að leggja fram sameiginlega tillögu um þingrof og kosningar, þegar þing kemur aftur saman eftir helgi. Hún segir að ríkisstjórnin sé rúin trausti og krefst þess að boðað verði til þingkosninga sem fyrst.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar komu saman í Alþingishúsinu síðdegis, til að ræða mögulega vantrauststillögu á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Eftir stíf fundarhöld varð niðurstaðan hins vegar sú að leggja fram sameiginlega tillögu um þingrof og kosningar.

„Hvaða form hún (tillagan) mun nákvæmlega taka höfum við ekki ennþá útfært, en við munum gera það á næstu dögum,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við fréttastofu að loknum fundi stjórnarandstöðunnar undir kvöld. „Við viljum líka leita svara við þeim spurningum sem ekki hefur enn verið svarað, fá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að funda, við viljum fá umboðsmann Alþingis til þess að koma á fund nefndarinnar til að fara yfir málið og það er eðlilegt að fara fram á það að ráðherrar gefi skýrslu í upphafi þingfundar í næstu viku.“

Vill að þjóðin fái að tala

Birgitta Jónsdóttir, þinflokksformaður Pírata, vill að þjóðin fái að segja sitt álit á stöðu ríkisstjórnarinnar. „Þingrof gengur út á það að þjóðin fái eitthvað að segja um það hvort hún treystir þessari ríkisstjórn eða ekki og þess vegna má eiginlega segja að þingrof gangi lengra heldur en vantraust því í þingrofinu er líka vantraustið,“ sagði Birgitta. „Þannig að okkur finnst tilefni til þess að ganga lengra en bara einfalt vantraust og leggja fram tillögu um þingrof.“

Margt breyst frá síðustu kosningum

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, segir ríkisstjórnina rúna trausti. „Það er vantraust í þjóðfélaginu og þessar upplýsingar sem hafa verið að koma í ljós, þær eru fordæmalausar og þær í raun og veru gera ákveðin forsendubrest á tilverugrundvöll ríkisstjórnarinnar og síðustu kosningar,“ sagði Óttarr í samtali við fréttastofu. „Það er allavega ljóst að það hefur ansi margt breyst síðan það var kosið og þessi meirihluti myndaðist á þingi, þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að það komi þá skýrt í ljós hvort þessi ríkisstjórn hefur misst traust inn á þingi líka eins og hún hefur gert í samfélaginu.“

„Óviðunandi ástand“

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir kröfu uppi í samfélaginu um að gengið verði til kosninga. „Fyrir mér er stóra málið það að ráðamenn þjóðarinnar hafa misst traust almennings í landinu og það hefur auðvitað komið á daginn að ráðamenn tilheyra fámennum hópi fólks sem á eignir, stórar eignir sumir hverjir, í skattaskjólum og það er auðvitað algjörlega óviðunandi ástand,“ segir Katrín. „Ég hef enga trú á því að ríkisstjórnin óttist kosningar miðað við hvernig hún talar, þannig að ég vonast svo sannarlega til þess að krafa okkar um þingrof og kosningar, að hún verði samþykkt.“

Spurð um hvort hún telji væntingar stjórnarandstöðunnar raunhæfar, svaraði Katrín: „Ja, ef menn óttast ekki kosningar þá hafa menn tækifæri til að sýna það í verki.“