Segist alltaf hafa efast um snjóflóðavarnir á Flateyri

15.01.2020 - 16:04
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Jónsson - RÚV
Eigandi línu- og handfærabátsins Blossa, sem sökk í höfninni á Flateyri í kjölfar snjóflóðsins þar í gærkvöld, segist lengi hafa óttast að snjóflóð félli á smábátahöfnina. Hún segist hafa gagnrýnt legu varnargarðanna allt frá upphafi.

Annað af þeim snjóflóðum sem féllu á Flateyri fór á smábátahöfnina og skemmdi þar eða eyðilagði alla báta nema einn. Þá stórskemmdist flotbryggja og tjón varð á öðrum mannvirkjum.

Benti á galla á varnargörðunum strax í upphafi

Guðrún Pálsdóttir, einn eiganda Blossa ÍS sem sökk í höfninni, segist alltaf hafa efast um að varnagarðarnir við Flateyri myndu duga til að verja höfnina fyrir stórum snjóflóðum. Hún hafi bent á þetta strax þegar verið var að kynna garðana á sínum tíma og taldi þá vísa flóði beint í smábátahöfnina. „Og þarna svara mér einhverjir menn og segja að ef það komi flóð þá fari það í litla lónið. Það er lítið lón fyrir ofan smábátabryggjuna og það muni taka við flóðinu. Ég er ekki búin að gleyma þessum fundi."

„Þetta þarf að laga“

Harpa Grímsdóttir fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofunnar sagði í fréttum útvarps í morgun að snjóvarnargarðarnir hafi ekki verið hannaðir þannig að þeir ættu að verja hafnarsvæðið. Og Guðrún segist of hafa horft upp í fjall og hugsað hvað gerðist ef mikill snjór safnaðist þar fyrir. „Þannig að maður bara trúir ekki að þetta sé búið að gerast. Og getum við nokkuð treyst þessum görðum? Ég held að það verið að laga þá ef það á að búa á Flateyri. Öll mannanna verk eru gerð til þess að reyna að gera góða hluti, en þarna er bara eitthvað sem er ekki í lagi. Þetta þarf að laga."

Ekki hægt að færa bátana annað

Og hún segir enga aðra aðstöðu fyrir bátana á Flateyri og ekki hægt að færa þá þegar um snjóflóðahættu er að ræða. „Nei, þú tekur ekki svona bát eins og Blossa í þreifandi byl og allt ófært og veist ekki hvað er að gerast. Og hitt voru stærri bátar. Nei, nei, það er ekki sjens. Eini sjensinn er að breyta afstöðu varnargarðsins og laga hann. Það hefði verið hægt að beita honum aðeins inn fjörðinn og þá hefði flóðið farið beint út í sjó, ekki á bryggjuna.“