Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir vonbrigði hversu hægt viðræður gangi

02.09.2019 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Stefnt var að því að skrifa undir nýja kjarasamninga opinberra starfsmanna við ríki og sveitarfélög um miðjan mánuðinn. Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM efast um að það takist. „Þetta gengur allt frekar hægt, það þarf að halda vel á spöðunum ef það á að takast að ná samningum við ríkið fyrir 15. september,“ segir Þórunn.

Þórunn segir vonbrigði hversu hægt viðræður gangi og hvað tíminn er illa nýttur. „Það er ósamið um öll atriði. Auðvitað er búið að fjalla um mörg mikilvæg atriði í kröfugerð aðildarfélaganna en það er ekki komin niðurstaða í neitt,“ segir Þórunn. Félög sem eru ekki hjá ríkissáttasemjara hafa skrifað undir friðarskyldu til 15. september. Það þýðir að ekki er hægt að vísa deilum til sáttasemjara eða boða til verkfallsaðgerða.

Rösklega 200 kjarasamningar eru lausir meðal opinberra starfsmanna bæði hjá ríki og bæ. Viðræður við sveitarfélögin eru komin styðst á veg. „Það er betra að klára fyrst það sem átti að gera samkvæmt samningum sem eru útrunnir áður en byrjað er á nýjum,“ segir Þórunn og vísar í starfsmat sem á eftir að klára. 

Flóknast að stytta vinnuvikuna hjá vaktavinnufólki

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB segir að heldur sé ekki búið að loka neinum málum í viðræðum BSRB við hið opinbera. „Flóknasta viðfangsefni okkar er stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki,“ segir Sonja Ýr. Sérfræðingar vinna að því að finna lausn á því. „En það liggur ekki fyrir nein niðurstaða, “ að sögn Sonju. Hún segir að enn sé stefnt að ná saman fyrir miðjan mánuðinn en það sé ekki víst að það takist.