Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir ummælin fela í sér róg og smánun

27.04.2015 - 11:21
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtökin '78 hafa lagt fram kærur á hendur tíu einstaklingum vegna ummæla í garð hinsegin fólks. Formaður samtakanna segir ummælin fela í sér róg og smánun.

Samtökin '78 lögðu í morgun fram kærur á hendur tíu einstaklingum fyrir hatursfull ummæli í garð hinsegin fólks. Kærurnar voru lagðar fram hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. 

„Ástæðan er náttúrulega sú að það spratt upp umræða í kjölfar samþykktar Hafnarfjarðarbæjar um að taka upp hinsegin fræðslu í grunnskólum og umræðan sem fylgdi í kjölfarið var ansi heiftúðug og illskeytt og hefur riðið yfir alla síðustu viku og það er ástæðan fyrir að við gerum þetta,“ segir Hilmar Hildarson Magnúsarson formaður Samtakanna '78.

Í kærunum er vísað til 233. greinar almennra hegningarlaga þar sem segir meðal annars að hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Hilmar segir að ummælin sem voru kærð séu mjög mismunandi.

„En mörg þeirra eru hreinlega illskeytt og meiðandi fyrir fólk. Rógur og smánun.“

Geturðu nefnt dæmi um eitthvað sem þarna kemur fram?

„Ég vil ekki fara beinlínis í einstök tilvik eða þá sem við erum að kæra hér í dag. Við ætlum að láta lögreglunni það eftir að meta þetta og skoða. En þetta er ekkert gamanmál. Við erum ekkert að gera þetta bara til þess að gera þetta. Það er ástæða að baki. Og við teljum að þetta brjóti í bága við íslensk lög,“ segir Hilmar.

Björg Valgeirsdóttir, lögmaður Samtakannam '78, tekur undir þetta.

„Við teljum að vel ígrunduðu máli að ummæli í garð hinsegin fólks sem hingað til hafa fengið að viðgangast athugasemdalaust, ummæli og umræða sem fela í sér háð, róg, smánun og jafnvel ógnun í garð hinsegin fólks skuli ekki fá að viðgangast athugasemdalaust eða ábyrgðarlaust. Hér erum við með kærunum að benda á hvar við teljum að ábyrgðin liggi. Við teljum að þetta sé refsiábyrgð. Og það er bara í höndum yfirvalda að ákveða hver næstu skref eru,“ segir Björg.

 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV