Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir tóninn í áliti siðanefndar áhyggjuefni

01.08.2019 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bergþór Ólason, þingmaður  Miðflokksins, segir tóninn í áliti siðanefndar Alþingis vera athyglisverðan en um leið áhyggjuefni. Þetta kemur fram í bréfi sem Bergþór sendi Steinunni Þóru Árnadóttur og Haraldi Benediktssyni, varaforsetum Alþingis. Þau Steinunn og Haraldur fengu það verkefni að fjalla um Klaustursupptökunar svokölluðu. Það er álit siðanefndar að Bergþór og Gunnar Bragi Sveinsson hafi brotið siðareglur Alþingis með ummælum á öldurhúsinu Klaustri 20. nóvember síðastliðinn. 

Bergþór segir að sé meðvitað, eða ómeðvitað, ætlunin að koma til móts við þá hörðu gagnrýni sem siðanefnd varð fyrir í kjölfar afstöðu sinnar til máls Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þá sé slíkt ótækt með öllu og stæðist engar kröfur samtímans um meðferð mála. 

Fréttavefurinn mbl.is birti bréf Bergþórs. Í bréfinu segir hann að setningar í áliti siðanefndar eins og að siðanefnd telji ekki þörf á að greina hvert atriði í ummælum undirritaðs, þar sem „þau séu öll af sömu rótinni sprottin“, beri ekki með sér hlutleysi í mati. 

„Án þess að reikna með svari, þá verð ég að spyrja; hvernig kemst siðanefnd að þeirri niðurstöðu að óhefluð og gagnrýniverð ummæli mín um Ingu Sæland séu af sömu rót sprottin og frásögn mín af því þegar ég varð fyrir kynferðislegu áreiti? Eru það að mati siðanefndar bara konur sem geta orðið fyrir kynferðislegu áreiti?“ 

Bergþór segir að stjórnmálamenn séu í þeirri stöðu að kveða upp dóm yfir pólitískum andstæðingum sínum og einhvern veginn hafi þeim sem á hafa haldið tekist að klúðra málum þannig að öll eðlileg viðmið hvað réttindi þeirra sem málarekstur beinist að verið látin víkja. 

„Í kjölfar þeirra tveggja mála sem forsætis- og siðanefnd hafa klárað og kannski sérstaklega vegna þeirra mála sem forsætisnefnd hefur ekki klárað, tel ég rétt að það verði skoðað alvarlega að leysa upp siðanefnd Alþingis og þann feril sem nefndinni fylgir. Allt ferlið, í öllum þeim málum sem undirritaður þekkir til að vísað hafi verið til forsætis-/siðanefndar á grundvelli siðareglna Alþingis, hefur klúðrast með einum eða öðrum hætti. Slíkt kastar rýrð á Alþingi og skaðar ímynd þess. Auk þess að slíkt sleifarlag sýnir Alþingi, stöðu þess og störfum ekki virðingu,“ segir Bergþór sem tekur jafnframt fram í bréfinu að hann sjálfur hafi tekið við þeim skömmum sem hann taki mest mark á vegna málsins frá móður sinni fyrir tæpum átta mánuðum.