Segir þverpólitíska sátt um veggjöld

12.09.2019 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis fagnar fyrirætlunum ríkis og sveitarfélaga um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og segir þverpólitíska samstöðu hafa myndast fyrir því að taka upp veggjöld.

Í sjónvarpsfréttum RÚV í gærkvöldi var greint frá meginatriðum áætlunar ríkis og borgar um samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu næstu fimmtán árin. Þar vegur þyngst borgarlína en hlutar Miklubrautar og Sæbrautar verða settir í stokk auk fleiri framkvæmda. Hluti framkvæmdanna verður fjármagnaður með veggjöldum en ríki og sveitarfélög leggja einnig til fjármagn. Jón Gunnarsson, formaður samgöngunefndar, fagnar áformunum og segir þau metnaðarfull.

 „Hérna er auðvitað verið að reyna að höggva á þann hnút sem að hefur myndast hér á höfuðborgarsvæðinu. Höfuðborgarsvæðið hefur orðið út undan á undanförnum árum í samgöngumálum og löngu tímabært að fara út í mjög stórar og miklar aðgerðir og þetta tekur bæði til almennra samgangna og almenningssamgangna."

Samræma þarf þessar áætlanir við samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi síðasta vetur.  Aðspurður segir Jón að áformin samræmist samgönguáætlun.  „Það má segja það að í samgönguáætlun í febrúar tókum við ekki mikið tillit til höfuðborgarsvæðisins að þessi vinna var í gangi. Það er ástæða þess að kallað var eftir því að samgönguáætlun komi aftur fram í haust,“ segir Jón og bætir við:

„Það sem mér finnst vera stórpólitíska fréttin í þessum tillögum er að það virðist svo vera eftir allan þann ágreining sem hefur verið á hinu pólitísku sviði um einhver sérstök veggjöld til að flýta og hraða uppbyggingu samgöngukerfisins, um það virðist vera orðin þverpólitísk sátt þar sem að þátttaka allra stjórnmálaflokka liggur að baki þeirri vinnu sem samgönguráðherra er kominn á lokastig með og var að kynna fyrir okkur í gær."

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi