Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir Þjóðverja geta lært af Íslendingum

12.06.2019 - 19:36
Mynd: Vilhjálmur Guðmundsson / RÚV
Opinber heimsókn Frank-Walters Steinmeier forseta Þýskalands hófst í morgun, en þetta er fyrsta opinbera heimsóknin, í forsetatíð Guðna Th. Jóhannessonar. Steinmeier segir Þjóðverja geta lært margt af Íslendingum í umhverfis- og loftslagsmálum.

Lúðrasveit Reykjavíkur lék þjóðsöngva ríkjanna á Bessastöðum í morgun en að því búnu heilsuðu forsetahjónin ráðherrum úr ríkisstjórn Íslands, embættismönnum og hátt í hundrað börnum af Álftanesi á öllum aldri, sem voru mjög spennt að taka á móti þessum erlendu gestum.  

Því næst héldu forsetarnir og fylgdarlið inn á Bessastaði, þar sem þeir ræddu hvernig mætti styrkja enn frekar gott samband ríkjanna. Þar og á blaðamannafundinum sem fylgdi voru loftslagsmál áberandi. Steinmeier sagði að Íslendingar hefðu staðið sig vel í umhverfismálum og orkuskiptum, án þess að valda of miklum breytingum á lífi fólks, og af því geti Þjóðverjar lært

Steinmeier var síðan viðstaddur opnun ljósmyndasýningar í Árbæjarsafni Heimat - tveir heimar, sem segir sögu þýskra kvenna sem sigldu til Íslands með Esjunni árið 1949, þegar seinni heimsstyrjöldinni var lokið, í leit að betra lífi. Konurnar settust hér að, stunduðu vinnu og margar hverjar síðar nám, eignuðust fjölskyldur og eiga þannig langflestar stóran hóp afkomenda. 

 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV
johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV