Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir talnaleikfimi afvegaleiða og flækja umræðuna

20.02.2020 - 09:19
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að talnaleikfimi eins og borgarstjóri hafi verið með í Kastljósi í gærkvöld sé hönnuð til þess að afvegaleiða og flækja umræðuna og endurspegli það sem samninganefndinni mæti við samningsborðið. Hann segir að samningafundurinn í gær hafi verið vonbrigði.

Annar fundur í kjaradeilu Eflingar og Reykjavíkurborgar hefur ekki verið boðaður. Félagsmenn í Eflingu halda því áfram í ótímabundnu verkfalli. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, sagði í Kastljósi í gær að tilboð Eflingar væri langt umfram lífskjarasamninga og langt umfram tilboð borgarinnar, sem yrði líklega mesta hækkun lægstu launa sem samið hefði verið um í kjaraviðræðum.

Rætt var við Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Eflingar í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hann telur sátt um að leiðrétta lægstu launahópana. Launasetningin eigi rætur í úreltum viðhorfum. 

Viðar segir að í tölum borgarstjóra í Kastljósi í gær séu krónutöluhækkanir sem þegar sé sátt um að gera á grundvelli Lífskjarasamningsins og þær hækkanir séu 90 þúsund krónur á þriggja til fjögurra ára samningstímabili. Efling vilji fá til viðbótar leiðréttingu á kjörum láglaunafólks, á bilinu 17 til 46 þúsund krónur.  Sú leiðrétting gæti verið sérstakt álag sem ekki kæmi inn í grunn til útreiknings á yfirvinnu og vaktavinnu. 

Borgarstjóri telji ekki sérgreiðslur eins og yfirvinnutíma inni í lægri töluna en telji hana með í hærri tölunni. 

„Þetta er ágætis endurspeglun á því sem okkur hefur mætt í þessum viðræðum í herberginu. Allskonar talnaleikfimi sem einhvern veginn er hönnuð til þess að afvegaleiða og flækja umræðuna og hjálpar okkur ekkert við að komast áfram.“

Segir gildi starfanna vanmetið

Viðar segir að borgarstjórnarmeirihlutinn hafi verið með það í meirihlutasáttmála sínum 2018 að bæta lægstu kjörin. Hann segir að borgin spari um milljarð í leikskólakerfinu með því að hafa fólk á lágum launum.

„Við höfum sagt það margoft hvað aðalatriði málsins er og það er að það komi hér til sérstök hnitmiðuð leiðrétting á kjörum láglaunafólks í samræmi við yfirlýsingar borgarstjórnarmeirihlutans sjálfs og sem endurspegli sögulegt vanmat á gildi þessara starfa sem muni jafnframt vera skref fram á við í að leysa þá kreppu sem ríkir í þessum þjónustukerfum; leikskólunum og víðar í kerfinu vegna undirmönnunar, álags og svo framvegis. Við horfum auðvitað til þess að hér sé upplagt fyrir Reykjavíkurborg að nýta eitthvað af þeim þúsund milljónum sem borgin sparar sér árlega. Það er milljarður í launakostnað sem Reykjavíkurborg sparar sér árlega bara í leikskólakerfinu í gegnum það að láta ófaglært fólk, Eflingarstarfsmenn, ganga í störf faglærðra.“

Krafan sé um að tveir þriðju starfsmanna séu faglærðir en þessu sé öfugt farið í reynd. 

Blaut tuska framan í Eflingarfólk

Viðar  gagnrýnir ummæli borgarstjóra að hann telji að starfsfólkið sé skólafólk að safna sér fyrir heimsreisu. 

„Þetta er blaut tuska framan í okkar fólk. Við erum hér að tala um fullorðnar manneskjur af holdi og blóði sem þarf að lifa á þessum launum, ekki bara að halda sjálfum sér uppi, heldur oft og tíðum börnum og fjölskyldum, hér á dýrasta landsvæði, dýrasta lands í heimi. Og þetta er dauðans alvara fyrir okkar fólk og að leyfa sér að tala með þessum hætti finnst mér mjög ábyrgðarlaust og ekki hjálplegt.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Viðar í spilaranum hér fyrir ofan. 

 

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbótarupplýsingum um tilboð Eflingar sem kom fram í hádegisfréttum.