Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir svör sín hafa verið ónákvæm - viðtal

08.01.2017 - 19:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, segir að svör sín í fréttum RÚV í gær, varðandi tímasetningar í tengslum við skýrslu starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum, hafi ekki verið nákvæm og biðst velvirðingar á því. Hann hafi hins vegar ekki séð skýrsluna fyrr en hann fékk kynningu á henni 5. október, eða rúmum þremur vikum fyrir kosningar.

Starfshópur á vegum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, skilaði skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum til ráðuneytisins 13. september. Eftir að skýrslunni var skilað voru engar efnislegar breytingar gerðar á henni.

Óraunhæft að ná umræðu um skýrsluna í þinginu

Bjarni fékk síðar sérstaka kynningu á efni skýrslunnar 5. október, en hann sagði í fréttum RÚV í gær að skýrslan hefði ekki borist ráðuneyti hans fyrr en eftir þingslit, sem voru 13. október.

„Jájá, þetta var kannski ekki alveg nákvæm tímalína hjá mér eins og ég fór yfir þetta í gær,“ segir Bjarni í samtali við fréttastofu. „En það sem ég átti við, og var í huga mér, var það að þegar þessi skýrsla er kynnt fyrir mér, sem er þarna já fyrstu vikuna í október, þá standa yfir samningar um þinglok og það er beðið eftir því, og reyndar krafa stjórnarandstöðunnar að við ættum að vera löngu farin heim, og sú hugsun mín að málið gæti fengið efnislega meðferð í þinginu var í raun og veru óraunhæf á þeim tíma.“

Biðst afsökunar

Bjarni kveðst ekki hafa séð skýrsluna fyrr en hún var kynnt honum 5. október. „Í huga mínum í gær þá hugsaði ég með mér, ja mér leið eins og þingið hefði bara verið farið heim, en þetta var kannski ekki nákvæm tímalína hjá mér og ég biðst nú velvirðingar á því.“

Hann telur að birting skýrslunnar fyrir kosningar hefði litlu breytt. „En ég skal ekki taka það af neinum, einhverjum kann að líða þannig að hann hefði viljað fá að sjá þessa skýrslu fyrr, og það er bara á mína ábyrgð að ég hafi haldið þannig á málinu að ég hafi verið að hugsa þetta fyrst og fremst fyrir þinglega meðferð og síðan opinbera kynningu,“ segir Bjarni.

 

Mynd: RÚV / RÚV
Hér má horfa á viðtalið við Bjarna Benediktsson í kvöld í heild sinni.

 

Neitar að hafa látið breyta forsíðu skýrslunnar

Vefmiðillinn Stundin vakti athygli á því í dag að á forsíðu skýrslunnar, sem hægt er að nálgast á vefsíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, hafi textinn „september 2016“ verið hvíttaður og gerður ólæsilegur. Fréttastofa hefur fengið staðfest í dag að dagsetninguna hafi verið að finna á upprunalegri skýrslu starfshópsins. 

Fréttastofa spurði Bjarna hvort hann hafi látið gera þetta. „Nei, það gerði ég svo sannarlega ekki. Ég hef ekki hugmynd um það hvers vegna eitthvað slíkt kann að hafa átt sér stað,“ svaraði hann.