Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir starfsfólk HSS uggandi um störf sín

Úr umfjöllun Kveiks um offituaðgerðir.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Mynd úr safni.  Mynd: Kveikur - RÚV
Starfsfólk á slysa- og bráðamóttöku Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja óttast um störf sín og hefur verulegar áhyggjur af stöðunni sem upp er komin á vinnustaðnum, og var erfið fyrir. Óánægja er meðal starfsfólks með nýjan forstjóra. Þá eru samskipti milli starfsfólks og framkvæmdastjórnar sögð hafa verið engin undanfarnar vikur. Auk þess hafi stofnunin lengi verið fjársvelt.

Þetta kemur fram í greinargerð hjúkrunarfræðingsins sem birt er á miðlinum Suðurnes.net, þar sem fjallað er um málið. Greinargerðin var lesin upp á aðalfundi Öldungaráðs Suðurnesja nú á dögunum. Þar segir að staðan á Heilbrigðisstofnuninni sé erfið, hjúkrunarfræðingar fáliðaðir og stofnunin hafi verið fjársvelt til fjölda ára. Þó fari læknum fjölgandi sem beri að fagna.

„Við fáum meðaumkun og samhygð í orðum sem sýna sig aldrei í verki. Taka skal fram að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fær raunlækkun í fjárlögum árið 2020 sem sýnir engan veginn þann einhug í umræðunni um að styrkja hag stofnunarinnar,“ segir í greinargerðinni. Bæjaryfirvöld hafi barist fyrir því að fjárlög til stofnunarinnar verði aukið.

Samskiptin ófagmannleg og lítil sem engin

Þá gætir óánægju með nýjan forstjóra og samskipti milli starfsfólks og framkvæmdastjórnar eru sögð takmörkuð. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra skipaði Markús Ingólf Eiríksson sem forstjóra stofnunarinnar í febrúar. Sjö sóttu um starfið. 

Í greinargerð hjúkrunarfræðingsins segir að nýjum forstjóra hafi verið mætt með með bjartsýni og tilhlökkun til betri tíma af hálfu starfsfólks. Breytingar hafi svo verið boðaðar en þær ekki kynntar formlega fyrir starfsfólki. Þess í stað heyri starfsmenn af fyrirhuguðum lokunum deilda útundan sér á göngunum. Þá virðist sem svo að til standi að draga úr mikilvægi hjúkrunar við stofnunina, sem sé áhyggjuefni. 

„Það að heyra útundan sér að forstjórinn stimpli þessar aðstæður sem kerlingarvæl í hjúkkum sem höndla ekki breytingar er ófagmannlegt og hrein lygi,“ segir í greinargerðinni. 

Starfsmenn hafi verulegar áhyggjur af stöðunni og stjórnunarháttum. Þegar hafi tveir hjúkrunarfræðingar sagt upp störfum á deildinni og fleiri séu að hugsa sinn gang. Þá hafi framkvæmdarstjóri hjúkrunar einnig sagt upp vegna samskiptaörðugleika við umræddan forstjóra, segir í greinargerðinni. Söknuður eftir henni er sagður verulegur.

Heilbrigðiseftirlitið meðvitað um ágreininginn

Heilbrigðisráðuneytinu er kunnugt um ágreining innan stofnunarinnar. Í frétt á vef Suðurnesja.net frá því í lok október segir að ráðuneytinu hafi borist vantraustsyfirlýsing vegna starfa forstjórans, sem undirrituð var af sextán starfsmönnum stofnunarinnar. Á fjórða hundrað manns starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. 

Þá var Markúsi, forstjóra stofnunarinnar, gefinn kostur á að tjá sig um málið við ráðuneytið og, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu, svaraði hann þeim spurningum sem beint var til hans. 

Bæjaryfirvöld lengi kallað eftir auknum fjárframlögum

Fjallað hefur verið um málefni stofnunarinnar að undanförnu. Greint var frá því fyrr á árinu að bæta þurfi  þjónustu Heilbrigðisstofnunarinnar samkvæmt úttektum Embættis landlæknis. Lýðheilsuvísar embættisins sýna að ýmsir þættir heilsu og líðan fólks er verri á Suðurnesjum en annars staðar á landinu.

Þá hafa bæjaryfirvöld sveitarfélaganna á Suðurnesjum lengi kallað eftir auknum fjárframlögum frá ríkinu til ríkisstofnana á svæðinu, þar á meðal til heilbrigðisstofnunarinnar. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar hefur einnig lýst yfir vonbrigðum með að fjárframlög hafi ekki verið hækkuð í takt við íbúafjölgun bæjarins.

Ríkisstjórnin samþykkti í apríl tillögu heilbrigðisráðherra um aukna fjármuni til stofnunarinnar, meðal annars svo hægt væri að efla ýmsa þætti í þjónustunni og laga hana að breyttum þörfum og aðstæðum íbúa vegna stóraukins atvinnuleysis á svæðinu.

Þá kom fram að gera mætti ráð fyrir því að aukið atvinnuleysi á Suðurnesjum hafi í för með sér aukna þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á svæðinu en töluverður fjöldi fólks á Suðurnesjum missti vinnuna í vor þegar flugfélagið flugfélagið WOW air fór í þrot og Airport Associates sagði upp stórum hluta sinna starfsmanna. 

Ekki náðist í forstjóra stofnunarinnar við gerð fréttar og framkvæmdarstjórn gaf ekki kost á viðtali að svo stöddu.