Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir Sigurð Inga hafa gengið bak orða sinna

24.09.2016 - 19:19
Mynd:  / 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson segir að framboð Sigurður Inga Jóhannsson til formanns Framsóknarflokksins valdi honum vonbrigðum. Hann segir Sigurð Inga margoft hafa sagt að hann ætli ekki að fara gegn honum í formannsslaginn.

Sigmundur Davíð sagði að hann og Sigurður Ingi hafi rætt um tvennt þegar hann tók við forsætisráðherraembættinu. „Það var tvennt sem við ræddum þegar ég bað hann að taka við forsætisráðherraembættinu á meðan mál væru að skýrast, annars vegar það að ég treysti honum til þess að standa við það sem hann hafði lofað mér bæði persónulega og lýst yfir opinberlega og nýta ekki þetta tækifæri til að fara gegn mér. Hann hét því. Hitt var að hann héldi mér upplýstum,“ sagði Sigmundur Davíð í kvöldfréttum.

Þú ert að segja að Sigurður Ingi er ekki maður orða sinna?

„Ja, hann hefur margoft ítrekað það við mig að hann muni aldrei fara gegn mér. Hann hefur lýst því þannig líka við fólk á fundum svo ég vitni bara beint í hann að hann myndi aldrei, aldrei, aldrei bjóða sig fram. “ 

Þér finnst hann hafi svikið þig?

„Mér finnst hann augljóslega ekki hafa fylgt því sem rætt var um.“

Nú segir Sigurður Ingi að það sé vænlegra fyrir flokkinn að hann leiði hann.

„Staða flokksins er svipuð nú og hún hefur oft verið á kjörtímabilinu, sem er þokkalegt í ljósi þess hvernig umfjöllunin hefur verið að undanförnu.“ 

Hvernig hafa samskipti ykkar verið?

„Ég hef leitast eftir fundi frá miðstjórnarfundinum en hann hefur ekki séð sér fært að funda fyrr en ég hitti hann á þingflokksfundi í gær.“

Sigmundur segist ekki hafa endurskoðað ákvörðun sína um að bjóða sig fram til formanns. „Ég ætla að berjast í pólitíkinni á meðan ég trúi að ég geti gert gagn. Á sömu forsendum og ég ákvað að fara í pólitík á sínum tíma.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Hrefna Rós Matthíasdóttir
Fréttastofa RÚV
Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV