Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir sanna sakleysi Sævars Ciesielski

02.08.2016 - 19:04
Sævar Ciesielski í Hæstarétti. Skjáskot úr sjónvarpsupptöku.
Sævar Ciesielski í Hæstarétti. Settur saksóknari hefur farið fram á endurupptöku á málatilbúnaði á hendur honum og þriggja annarra sem dæmdir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Mynd: RÚV
Ragnar Aðalsteinsson, einn verjenda sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu segir að nýjar vísbendingar sem fram koma í óútgefinni bók blaðamannsins Jóns Daníelssonar sanni sakleysi Sævars Ciesielski og þar með annarra sem blönduðust inn í málið. Endurupptökunefnd hefur fengið ítarlegar upplýsingar um málið.

Í óútkominni bók Jóns Daníelssonar um Guðmundar- og Geirfinnsmálið er ljósi varpað á mögulega fjarvistarsönnun Sævars Marinós Ciesielski í Geirfinnsmálinu. Jón bendir á í bók sinni að Sævar hafi sýnt fram á sakleysi sitt þegar hann hafi setið 21 mánuð í gæsluvarðhaldi. Hann hafi þá sent saksóknara bréf um fjarvistir kvöldið sem hann átti að hafa myrt Geirfinn.

Í bréfinu ritar Sævar upp að hann hafi horft á sjónvarpsþátt umrætt kvöld. Í bréfinu lýsti hann innihaldi þáttarins nákvæmlega. Jón segir að hann hafi farið og skoðað umræddan sjónvarpsþátt og séð að Sævar hafi lýst innihaldi þáttarins einstaklega vel. Svo vel að í raun sé það óyggjandi sönnun þess að hann hafi séð þáttinn: „Þátturinn var sýndur á sama tíma og Sævar átti að vera í Keflavík. Það hefði verið illmögulegt fyrir hann að vera á þessum tveimur stöðum á sama tíma“

Áætlað er að bók Jóns Daníelssonar komi út í september. Hann hefur unnið lengi að bókinni enda mörg skjöl að skoða: „Ætli skjölin skipti ekki þúsundum. Ég hef lengi verið að vinna að þessu bæði í tómstundum og sem blaðamaður,“ sagði Jón í samtali við fréttastofu. 

Jón segir að hann hafi látið Ragnar Aðalsteinsson vita af þessari vísbendingu sinni en Ragnar var verjandi Sævars þegar málið var endurupptekið árið 1997. Ragnar sagði í samtali að það fari ekki milli mála þetta varði varnir Sævars og allra hinna sem eiga hafa verið í Keflavík umrætt kvöld og hitt Geirfinn Einarsson: „Þau gögn sem Jón Daníelsson hefur dregið fram sýna að erfitt er að hrinda þeirri ályktun hans að fram sé komin fjarvistarsönnun Sævars Marinós Ciesielski og þar með allra hinna sem var blandað inn í málið,“ sagði Ragnar í viðtali við Fréttastofu RÚV. Hann segir enn fremur að endurupptökunefnd hafi fengið ítarlegar skýringar á þessum atriðum sem dregin eru upp í bók Jóns.

Jón Daníelsson segir að fleiri vísbendingar munu koma fram í bókinni. Aðspurður um hvenær bókin komi út segir hann að áætlað sé að koma henni út í september. Nú standi yfir söfnun á Karolina fund og að hann vonist til að sú söfnun hjálpi til og flýti fyrir útgáfu. 

 

 

Gunnar Sigurðarson
Fréttastofa RÚV