Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir ríkisvaldið framselt með orkupakkanum

30.08.2018 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Þriðji orkupakki Evrópusambandsins, sem verður hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ef Alþingi samþykkir, felur í sér að ríkisvaldið verður framselt til alþjóðlegra stofnana. Þetta segir Stefán Már Stefánsson prófessor við lagadeild Háskóla Íslands. 

Sameiginleg nefnd Evrópska efnahagssvæðisins hefur samþykkt að fella svonefndan þriðja orkupakka Evrópusambandsins inn í EES-samninginn. Efta ríkin þrjú sem aðild eiga að samningnum gerðu stjórnskipulegan fyrirvara um ákvörðunina. Þjóðþing Noregs og Lichtenstein hafa þegar aflétt fyrirvaranum en ekki Alþingi. ­­Breyta þarf raforkulögum til þess að innleiða orkupakkann. 

Sjálfstæðisfélag Háaleitishverfis hélt opinn málfund í Valhöll um orkupakkann síðdegis og um miðjan mánuð var málþing um sama efni í HR. 

Felur þessi þriðji orkupakki Evrópusambandsins í sér valdaframsal?

„Já, ég býst við að maður verði að svara þeirri spurningu játandi.“

Á hvaða hátt?

„Á þann hátt að ríkisvaldið er að einhverju leyti framselt til alþjóðlegra stofnana.“

Stefán Már, sem er sérfræðingur í Evrópurétti, fjallaði um lagalega annmarka á innleiðingu orkupakkans á fundinum. Hann er í framhaldi af rannsóknum sínum á EES samningnum og viðbótum við hann að athuga hvort að í þessum pakka felist ríkisframsal og hvort að það standist ákvæði stjórnarskrárinnar: 

Á hvaða máta fer þessi orkupakki í einhvers konar berhögg við stjórnarskrána?

„Ég segi nú ekkert að hann fara í berhögg, sko, ég segi bara að þetta sé skoðunarefni sko. Það eru ákveðnar ákvarðanir teknar þarna sem að gæti falið í sér framsal ríkisvalds.“

Hann vill þó ekki fullyrða neitt fyrr en að rannsókn lokinni en hann segir að ef til dæmis rafmagn verður flutt um sæstreng til Evrópu þá séu komin á viðskipti sem ekki séu fyrir hendi í dag. 

„Við lendum inn á evrópskum samkeppnismarkaði ef við svo má orða það.“