Segir ríkið verða að axla ábyrgð vegna loðnuleitar

Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ekkert skip hefur haldið til loðnuleitar það sem af er ári. Útgerðarfyrirtæki vilja fá greitt fyrir þáttöku sína í leitinni. Formaður SFS segir ríkið verða að axla ábyrgð og koma með aukna fjármuni inn í leitina, sem og rannsóknir á stofninum.

Síðustu ár hafa Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar og skip útgerðanna sinnt leit að loðnu. Stefnt var að því að fyrsta leit ársins færi af stað 13. janúar. Ekki er útséð um þá leit þar sem útgerðarfyrirtækin ætla ekki að standa straum að kostnaðinum.

„Félögin hafa boðist núna til þess að leigja Hafrannsóknastofnun skip undir leit,“ segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Í fyrra hafi kostnaður útgerðanna verið 130 milljónir vegna leitarinnar, engin loðna hafi svo fundist og ekkert orðið af veiðum. 

Engin leit án fjármögnunar

Jens segir viðræður við Hafrannsóknarstofnun og ráðuneytið í gangi og neitar að trúa því að stjórnvöld ætli ekki að setja aukinn kraft og fjármuni í loðnuleit. „Menn tala um það að þeir séu að reyna að finna lausn og ég vona og ég trúi ekki öðru en að það finnist lausn í málinu og stjórnvöld setji aukna fjármuni í það að leita að loðnu.“

Ef það koma ekki auknir fjármunir verður þá engin loðnuleit? „Þá er útlit fyrir það að það fari svo að það verði engin loðnuleit sem er mjög afleitt fyrir íslenska þjóð,“ segir Jens. Niðurstaða fyrir fjármögnun verði að liggja fyrir áður en haldið verður í leit. Í fyrra hafi útgerðin verið látin borga bróðurpartinn af leitinni og það sé ekki endalaust hægt að senda reikning fyrir skyldum sínum á útgerðarfyrirtækin.

Verði að axla ábyrgð

Ríkið verði að sjá það að leit að loðnu og hafrannsóknir séu ekki útgjöld heldur fjárfesting fyrir þjóðina. Það verði að setja fjármuni í stofnunina svo hún geti sinnt því hlutverki sem hún á að sinna. Loðnan sé ekki bara mikilvægur stofn fyrir uppsjávarfélögin heldur undirstöðufæða fyrir margar aðrar tegundir, það þurfi að setja meiri kraft bæði í leit að loðnu og rannsóknir á stofninum í heild. Útflutningsverðmæti loðnu árið 2018 voru tæpir 18 milljarðar.

Skora á stjórnvöld

Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur lýst yfir þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar en þar er áætlað að tapaðar launatekjur vegna síðasta loðnubrests séu um 1,2 milljarðar króna.

„Bæjarráð Fjarðabyggðar lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu loðnuleitar á Íslandsmiðum þar sem svo virðist að Hafrannsóknarstofnun muni einungis hafa eitt skip til að sinna því verkefni á þessu ári. Í ljósi þess hversu mikilvægur veiðistofn loðnan er í íslenskum sjávarútvegi þá er ástand þetta með öllu ólíðandi. Því skorar bæjarráð Fjarðabyggðar á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og stjórnvöld að tryggja nú þegar fjármagn til loðnuleitar og mælinga svo hægt sé að kanna með útgáfu veiðiheimilda.“

Ekki náðist í Sigurð Guðjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, við gerð fréttarinnar.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi