Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir ráðuneytið hafa brugðist sér

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist/RÚV
Afgreiðsla dómsmálaráðuneytisins á embættisfærslum Haraldar Johannessen, ríkislögreglustjóra, er allsendis ófullnægjandi og ekki til þess fallin til að leiða málið til lykta. Þetta segir fjölmiðlamaðurinn Björn Jón Bragason sem telur ráðuneytið hafa brugðist sér í málinu.

Umboðsmaður Alþingis krafði dómsmálaráðuneytið skýringa á því hvers vegna Haraldur Johannessen var ekki áminntur fyrir framgöngu hans gagnvart Birni Jóni og Sigurði Kolbeinssyni, þrátt fyrir að ráðuneytið hefði talið að hún væri ámælisverð. Ráðuneytið svaraði umboðsmanni í lok október og bar því við að Haraldur hafi gengist við misgjörðum sínum og lofað bót og betrun. Af þeirri ástæðu og til að gæta meðalhófs hafi Haraldur ekki hlotið áminningu.

Björn Jón mótmælir þessari skýringu ráðuneytisins í bréfi sem hann hefur sent umboðsmanni. Segir í bréfinu að umrætt mál sé svo alvarlegt að það verði ekki afgreitt einvörðungu á grundvelli meints misskilnings ríkislögreglustjóra eða óheppilegs orðalags.

Enn fremur segir Björn Jón að frekleg afskipti ríkislögreglustjóra af einkalífi hans hafi verið til þess fallin að vekja ugg og ótta um óljósar aðgerðir lögreglu sem kynnu að vera fram undan og beindust gegn honum. Segir Björn Jón að ráðuneytið hafi brugðist honum í málinu og afgreiðsla þess sé allsendis ófullnægjandi og ekki með nokkru móti til þess fallin að leiða málið til lykta.

Í samtali við fréttastofu staðfestir Sigurður Kolbeinsson að hann hafi einnig skrifað umboðsmanni bréf vegna málsins. Hefur Sigurður boðið Haraldi að skrifa einlægt afsökunarbréf sem ekki er ritað á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra. Verði Haraldur við því fyrir 18.  desember lítur hann svo á að málinu sé lokið, að öðrum kosti verði umboðsmanni gert viðvart.