Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Segir ráðherra vera að koma sér undan

21.11.2014 - 15:43
Mynd með færslu
 Mynd:
Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, er ósátt með tímasetninguna á afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra. Hún segir ráðherra vera koma sér undan því að þurfa svara fyrir skýrslu umboðsmann Alþingis um samskipti sín og lögreglustjórans í Reykjavík. Von er á álitinu í næstu viku.

Hanna Birna tilkynnti um afsögn sína í dag og sagðist jafnframt ætla að taka sér frí frá þingstörfum fram að áramótum. Við það er Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, ekki sátt. „Með því að vera ekki á þingi losnar hún við að svara skýrslu Umboðsmanns Alþingis og mér finnst það mjög alvarlegt mál,“ segir Birgitta í samtali við fréttastofu.

Birgitta segir að úr því sem komið er hefði henni fundist það eðlilegra að Hanna Birna kæmi á fyrirhugaðan fund stjórnskipunar - og eftirlitsnefndar eftir að skýrsla Umboðsmanns lítur dagsins ljós. „Hún þarf klárlega að sitja fyrir svörum og hún er ekki fórnarlamb í þessu máli. Hún talar um það í yfirlýsinguni að nú sé mál að linni - þetta mál er rétt að byrja,“ segir Birgitta. 

[email protected]