Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir ótækt að sjúkrabílar séu eins og jójó um sýsluna

06.03.2020 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinnsson - RÚV
Bæjaryfirvöld á Blönduósi skora á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að veita sjö milljónir króna í endurbætur á flugvelli bæjarins. Formaður byggðarráðs segir flugvöllinn ekki aðeins vera öryggisatriði fyrir íbúa á svæðinu heldur alla landsmenn.

Mikilvægt fyrir alla landsmenn

Í haust sendi Blönduósbær athugasemdir til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við drög að flugstefnu fyrir Ísland. Þar er m.a. vakin athygli á mikilvægi þess að Blönduósflugvelli verði áfram haldið við sem sjúkraflugvelli. Guðmundur Haukur Jakobsson er formanns byggðarráðs Blönduósbæjar. 

„Það segir sig svolítið sjálft að þetta er mikilvægur öryggishlekkur fyrir alla íbúa á svæðinu og alla þá sem um svæðið fara. Hér fara í gegn um 700 þúsund bílar á ári og eins veturinn í vetur hefur sýnt þá getum við bara lokast hérna af. Það er algjörlega ófært að hér séu jafnvel sjúkrabílar sendir af stað og lendi eins og jójó um sýsluna eins og við höfum dæmi um,“ segir Guðmundur.

Kostar fimm til sjö milljónir

Samkvæmt úttekt ISAVIA er áætlaður kostnaður við endurbætur fimm til sjö milljónir. Guðmundur segir vel koma til greina að sveitarfélagið taki þátt í þeim kostnaði.

„Mér finnst þetta nú bara óttalegir smámunir í stóra samhenginu og þetta er náttúrulega bara hlutur sem þarf að ganga í að sé græjað.“ 

Kemur til greina að bæjaryfirvöld taki þátt í þessum kostnaði?

„Við erum að sjálfsögðu til í að skoða það.“