Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Segir óráð að takmarka eldissvæði í Djúpinu

23.03.2020 - 09:56
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Hafrannsóknastofnun leggur til að leyfilegt laxeldi í sjó verði aukið um 20% á landsvísu og að eldi verði leyft meðal annars í Ísafjarðardjúpi. Forsvarsmenn fiskeldisfyrirtækis á Vestfjörðum segja takmarkanir Hafró ekki á vísindum reistar.

Á Austfjörðum er lagt til að leyfilegt eldi nær tvöfaldist og farið sé í 12.000 tonn á Fáskrúðsfirði og 16.000 tonn á Reyðarfirði. Þá verði laxeldi leyfilegt í Seyðisfirði upp á 6.500 tonn.

Fyrir vestan er ekki aukning á núverandi eldissvæðum, en ný svæði eru lögð til. annars vegar í Önundarfirði upp á 2.500 tonn og hins vegar í Ísafjarðardjúpi upp á 12.000 tonn.

Má ekki vera með eldi innst í Djúpinu

Fram til þessa hefur stofnunin mælt á móti laxeldi í Djúpinu og leggur nú til að eldi verði ekki stundað nær laxveiðiám í botni Ísafjarðardjúps en sem nemur línu frá Ögurnesi að Æðey og Hólmasundi. Þetta er gert til þess að takmarka hættu á erfðamengun.

Háafell, dótturfélag Hraðfrystihúss Gunnvarar í Hnífsdal, hefur sóst eftir því að setja lax eða silung í sjókvíar í Djúpinu síðan 2011. Fyrirtækið telur að með þessari takmörkun á eldissvæði í Ísafjarðardjúpi verði erfiðara að árgangaskipta fiski til að komast hjá sjúkdómum og laxalús. Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri, segir þetta setja strik í reikninginn í áætlunum fyrirtækisins.

„Ráðgjöfin er jákvæð að það skuli vera opnað á laxeldi í Djúpinu. En fyrir okkar fyrir tæki kemur þetta illa fyrir. Það er verið að reka okkur mörg skref til baka sem við erum búin að vera að stíga undanfarin ár,“ segir hann.

Útflutningur ferskfisks hefur hrunið undanfarna daga. Kristján telur það þó ekki standa í vegi fyrir eldisfyrirætlunum.

„Bara framleiðsluferli á laxaafurð til útflutnings, hann er minnst þrjú ár. Tvö og hálft, þrjú og hálft ár. Þannig að við erum að vonast til þess að hlutirnir lagist.“