Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir okurlán Kredia Group heyra sögunni til

26.07.2019 - 04:39
úr umfjöllun Kveiks um smálán.
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson
Forstjóri Kredia Group, sem farið hefur fremst í flokki þeirra sem boðið hafa smálán gegn okurvöxtum hér á landi, segir slík lán heyra sögunni til. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Kredia Group rekur nokkur smálánafyrirtæki á Íslandi, þar á meðal Hraðpeninga, 1909 og Kredia.

Fyrirtækin hafa rukkað viðskiptavini sína um allt að 3.000 prósenta vexti en forstjórinn, Ondrej Smakal, segir í Fréttablaðinu að frá því í maí hafi engin dótturfyrirtæki Kredia Group innheimt vexti umfram það hámark sem íslensk lög leyfa, sem eru 53,75 prósent.

Í blaðinu er einnig rætt við Gísla Kr. Björnsson, lögmann og stjórnanda Almennrar innheimtu, sem séð hefur um innheimtu fyrir smálánafyrirtæki hér á landi. Hann fullyrðir að hætt sé að innheimta lán með hærri vexti en 53,75 prósent og segir engin eldri lán á hærri vöxtum vera í innheimtu hjá sínu fyrirtæki. Brynhildur Pétursdóttir framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna segir það fagnaðarefni, „ef það er raunverulega svo að Almenn innheimta er loksins að hætta innheimtu á ólögmætum smálánum.“ Eins og fram hefur komið í fréttum hafði meira en helmingur þeirra sem leituðu til Umboðsmanns skuldara á síðasta ári lent í vandræðum vegna smálána á okurkjörum.