Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Segir niðurskurð aðför að vestfirsku samfélagi

07.12.2016 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga segir að niðurskurður á fjármagni til undirbúnings Dýrafjarðarganga sé aðför að samfélögum og atvinnulífi vestra. Sambandið undrist vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins og krefjist leiðréttingar á þessarri ákvörðun.

Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir 1,5 milljörðum króna til að undirbúa gerð Dýrafjarðarganga. Sjö fyrirtæki undirbúa nú tilboð í framkvæmdina, en til stóð að opna tilboðin 10. janúar. Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær er fjármagn til Dýrafjarðarganga skorið niður í 300 milljónir króna sem er ekki nóg til að undirbúa fyrirhugað útboð við gerð ganganna.

Alls ekki í takti við stöðu og undirbúning verkefnisins

„Þetta er allt að því aðför að samfélögum og atvinnulífi á Vestfjörðum,“ segir Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssamband Vestfirðinga. Hann segir að þessi afgreiðsla í fjárlagafrumvarpinu sé alls ekki í takti við stöðu verkefnisins og allan undirbúning þess. Það þurfi einn og hálfan milljarð til að bjóða út gangagerðina og Vestfirðingar hafi talið að búið væri að tryggja það fjármagn.

Undrast vinnubrögð ráðuneytisins

Þess vegna segir Aðalsteinn að menn undrist þessi vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins. „Þannig að þetta kemur mjög flatt upp á alla aðila hérna á Vestfjörðum. Og eins líka það sem maður hefur heyrt frá þingmönnum og öðrum sem hafa tjáð sig um málið.“  Hann segir að haldinn verði fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmis til að óska svara við þessum niðurskurði. „Og krefjast þess að þetta mál verði leiðrétt.“