Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Segir nauðungarvistun beitt of frjálslega

04.05.2017 - 22:18
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nauðungarvistun er notuð alltof frjálslega, að mati manns sem glímt hefur við geðsjúkdóm síðan hann var barn. Sigríður Á Andersen dómsmálaráðherra segir koma til greina að breyta lögum sem ná til nauðungarvistunar.

Geðhjálp og lagadeild Háskólans í Reykjavík héldu málþing í skólanum í dag um mannréttindi fólks með geðraskanir. Þar var Réttindagátt Geðhjálpar opnuð og kynnt, en þar geta geðfatlaðir og aðstandendur kynnt sér réttindi og úrræði. Kristinn Rúnar Kristinsson hefur glímt við geðsjúkdóm frá því hann var barn. Hann hefur talað opinskátt um sjúkdóminn síðustu ár og sagði frá reynslu sinni af nauðungarvistun. „Ég var greindur með geðhvörf 2009, þegar ég var tvítugur. Hef verið þrisvar sinnum þvingaður til nauðungarvistunar niðrá hringbraut og það er bara rosalega erfitt að vinna úr því og í rauninni bara ljótt að gera fólki það, það er bara ólöglegt, mannréttindabrot,“ segir Kristinn. 

Nauðungarvistun á sjúkrahúsi má beita þegar fólk er haldið alvarlegum geðsjúkdómi. Kristinn segir að vistunin hafi haft mikil áhrif og hann sé enn að jafna sig. „Það er notað þetta alltof frjálslega. Þetta er í rauninni bara ógeðsleg meðferð. Þó að starfsfólkið sé fínt að þá eru stjórnvöld, það vantar peninga, það vantar meiri úrræði, betri aðstöðu þannig að þessu verði minna beitt.“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra flutti erindi á fundinum en hún segir að á hverju ári sé beitt nauðungarvistun um hundrað sinnum. „Það gera menn auðvitað ekkert að gamni sínu. Það liggja fyrir því, að menn telja, læknisfræðilegt mat, ríkar ástæður og menn þurfa auðvitað að gæta meðalhófs hvað þetta úrræði varðar eins og með aðrar ákvarðanir í stjórnsýslunni. En það er líka ágætt að hafa það í huga að ákvæði og reglur um nauðungarvistun eru einmitt settar með hagsmuni hins vistaða í huga og til þess að hægt sé að tryggja honum þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem menn meta að sé nauðsynleg á tilteknum tímapunkti.“

Hún segir að lögræðislögin hafi verið endurskoðuð að nokkru fyrir ári síðan og það sé komin reynsla á það. Þar séu enn ákveðin álitaefni sem sjálfsagt sé að skoða. „Mér finnst alveg koma til greina og fullt tilefni að minnsta kosti að skoða það hvort það þurfi, meðal annars með hliðsjón af reynslunni að breyta lögunum eitthvað aftur, endurskoða þau eitthvað og færa þau í átt til betra samræmis við til dæmis samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. En þarf ekki að gera talsvert miklar breytingar til lögin samræmist þessum samningi? Ég er ekki viss um það séu miklar breytingar en það gætu verið grundvallarbreytingar á örfáum ákvæðum til þess að skýra aðeins og skerpa betur á inntaki laganna.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, kynnti Réttindagáttina á fundinum og sagði frá því hvaða lærdóm hún dró af yfirferð sinni yfir helstu lög og sáttmála um mannréttindi fólks með geðröskun við vinnslu vefsins. Þórhildur Sunna er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögu um endurskoðun lögræðislaganna.