Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Segir nánast útilokað að eldsumbrot séu hafin

Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Ragnarsson - RÚV
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir engar vísbendingar um að eldsumbrot séu hafin í Öræfajökli. heldur sýni gögn þvert á móti að jarðhiti sé á svæðinu.

Ólafur Flóvenz jarðeðlisfræðingur og forstjóri ÍSOR sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að langlíklegast væri að eldsumbrot séu hafin í Öræfajökli og að kvika komin mjög nærri yfirborði og hafi jafnvel komist í gegn. Ekki sé vitað um háhitasvæði við stærstu eldkeilur landsins, eins og til dæmis Öræfajökul. Magnús Tumi  Guðmundsson jarðeðlisfræðingur dregur þessa ályktun í efa. 

„Við teljum að það sé nánast útilokað. Þessar athugasemdir eða hugleiðingar sem komið hafa fram eiga ágætlega við almennt séð, en þegar aðstæður eru skoðaðar í Öræfajökli og það sem við vitum um Öræfajökul og þá atburði sem nú eru að gerast, þá verður þessi túlkun að teljast mjög ólíkleg vegna þess að það eru engin gögn sem styðja hana en heilmikið af gögnum sem mæla gegn henni.“

Magnús Tumi segir það þó ekki breyta því að flestir séu á því að kvika sé að skjótast inn í rætur Öræfajökuls. Það séu nokkur atriði sem geri þá túlkun ótrúverðuga að eldsumbrot séu hafin og þau þá veikluleg, eða kvika komin upp undir yfirborð. Ekki standist að Öræfajökull sé köld eldkeila. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að viðvarandi jarðhiti hafi verið í Öræfajökli svo lengi aftur sem gögn ná. Sigdæld hafi verið fyrir þar sem ketillinn er núna og sjáist á gervitunglamyndum allt frá árinu 1973.

„Nú er búið að skoða það. Alexander Jarosch jöklafræðingur er búinn að keyra mjög háþróuð þrívíð jöklalíkön, sem hann er sérfræðingur í, og þau sýna mjög ótvírætt að þessi dæld sem er búin að vera þarna í áratugi gæti ekki þrifist þarna nema vegna þess að það er hiti við botninn sem að bræðir nokkra metra af ís á ári.“

Auk þess sé litill sigketill við rætur Kvíárjökuls sem sést hafi á myndum í áratugi og dæmi um hveralykt uppi í öskjunni. Vísbendingar um jarðhita séu alveg skýrar, hann hafi hins vegar aukist mikið í haust. Þá liggi fyrir efnagreining á vatninu í Kvíá.

„Þær sýna mjög skýrt að það eru engin merki um kvikgös í þessu vatni, þetta er jarðhitavatn. Þannig að þau gögn sem við höfum falla að því að kvikuinnskot sé á nokkurra kílómetra dýpi, það passar við jarðskjálftana, þær vísbendingar sem aflögunarmælingar sýna falla að því þó að það sé mikil óvissa af því að þær mælingar eru bara það takmarkaðar enn sem komið er allavega. Og síðan það sem við vitum um ketilinn, um jarðhita fyrir og gerð vatnsins sem er að koma þarna. Allt hnígur að því að þetta sé jarðhiti af innskoti töluvert dýpra og það hafi opnast eiginlega gat á jarðhitageymi sem hafi haft takmarkað rennsli til yfirborðs,“ segir Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV