Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir mikilvægt að bæta lestrarkunnáttu barna

16.09.2019 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Nauðsynlegt er að bæta kennslu hér á landi meðal annars með aukinni starfsþjálfun kennara og endurmenntun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um íslensk efnahagsmál. Stofnunin bendir á að þrátt fyrir að útgjöld til menntamála hafi aukist á síðustu árum hafi það ekki skilað sér í bættum árangri íslenskra nemenda í PISA-könnuninni. Stofnunin spyr enn fremur hvort þörf sé á sjö háskólum í jafn fámennu landi og Íslandi.

 

OECD gerir úttekt á íslenskum efnahagsmálum á tveggja ára fresti en í skýrslunni sem var kynnt í dag er sérstaklega fjallað um menntamál og útgjöld ríkissjóðs. Stofnunin telur að efnahagsumhverfið hér á landi sé almennt heilbrigt, jöfnuður óvíða meiri og staða ríkissjóðs traust. Spáð er núll komma tveggja prósenta hagvexti á þessu ári og að hann verði tvö komma tvö prósent á því næsta.

Hins vegar séu blikur á lofti í efnahagsmálum á heimsvísu og því gæti það haft neikvæð áhrif á útflutningsgreinar og komu erlendra ferðamanna hingað til lands.

Stofnunin segir að reglur í íslensku atvinnulífi séu of íþyngjandi og hvetur stjórnvöld til að halda áfram með áætlanir um sölu banka.

„Þegar staða Íslands er sett í samanburð við önnur OECD ríki þá komum við vel út á lang flestum mælikvörðum og hlutir hafa verið að þróast í rétta átt. Það er ávallt mikil áhersla lögð á það hjá OECD að við aukum framleiðnina og fáum betri nýtingu á það fjármagn sem er til staðar. Sköpum líka hvata og beitum aðgerðum til þess að ná betur okkar markmiðum. Í skýrslunni er þess vegna að finna fjölmörg dæmi um svið þar sem við getum gert betur þó að staðan sé góð,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

„Það þarf að huga vel að því að ábatagreina fjárfestingar hins opinbera. Það er hvatt til þess að við höldum áfram uppbyggingu innviða, það er lagt til að við losum um eignarhald á fjármálafyrirtækum og nýtum fjármagnið með öðrum hætti. Það er bent á mikilvægi þess að fjármunir nýtist vel í stóru kerfunum okkar eins og í heilbrigðiskerfinu. Í menntamálum er nokkuð ítarlega farið yfir ýmsa þætti sem að má segja að dragi fram ákveðna veikleika í samanburði við önnur lönd en tækifæri til þess að gera tiltölulega einfaldar breytingar og ná meiri árangri,“ segir Bjarni.

Það er einmitt í kafla skýrslunnar um menntamál sem OECD segir að íslensk stjórnvöld geti bætt sig verulega. Stofnunin bendir meðal annars á að þrátt fyrir að útgjöld til menntamála hafi aukist á undanförnum árum hafi það ekki skilað sér í bættum árangri íslenskra nemenda í síðustu PISA könnunum. Bæta megi læsi með því að hafa lestur lengur sem kjarnafag í grunnskóla og einnig megi bæta kennslu með aukinni starfsþjálfun kennara og einstaklingsmiðaðri endurmenntun.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tekur undir mikilvægi þess að efla lesskilning og lestrarkunnáttu grunnskólabarna.

„Við sjáum það líka að börn með annað móðurmál en íslensku að þeim vegnar ekki eins vel í skólakerfinu og við þurfum að veita þeim framúrskarandi þjónustu eins og öllum börnum á Íslandi. Við þurfum líka að efla starfsnámið og við erum að gera það og við höfum verið að sjá verulega aukningu þar. Ég nefni enn og aftur lesturinn vegna þess að djúpur og mikill lesskilningur er grunnurinn að öllu öðru,“ segir Lilja.

OECD telur að miða ætti fjármögnun háskólastigsins í auknum mæli við árangur nemenda og þarfir vinnumarkaðarins. Stofnunin spyr enn fremur hvort þörf sé á sjö háskólum í jafn fámennu landi og Íslandi.

“Margir hafa verið að benda á þetta og ég held að við verðum að finna eitthvað jafnvægi í þessu eins og öðru. En það er líka athyglisvert að menntunarstig þjóðarinnar hefur hækkað mjög ört á síðustu tíu árum, eins og kemur líka fram í skýrslunni, og auðvitað er umhverfi háskólanna allt annað í dag en það var fyrir fimmtán árum. Ég hef líka mikla trú á því að það sé háskólanna sjálfra að athuga hver er þeirra framtíð. Við komum og styðjum við það. Við erum núna að búa til nýtt reiknilíkan er varðar fjármögnun háskólastigsins og ég tel að stjórnvöld eigi að hafa skoðun á því hvernig þessum fjármunum er varið,” segir Lilja.

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV