Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Menningarnótt almennt hafa gengið vel

25.08.2019 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Mikið var að gera hjá lögreglunni á Höfuðborgarsvæðinu í gærkvöld og í nótt vegna Menningarnætur. Talið er að á annað hundrað þúsund hafi komið í miðborgina. Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að almennt hafi gengið vel. „Það voru 141 verkefni. Fimm líkamsárásir, svona minniháttar stimpingar bara. Það er alveg ásættanlegt miðað við mannfjölda og stuðið í bænum,“ segir Jóhann. Þetta sé svipað magn mála og í fyrra þrátt fyrir að fleiri hafi lagt leið sína í miðborgina.

Átta gistu fangageymslur lögreglu í nótt. Þá hafði lögreglan talsverð afskipti af ungmennum sem ekki höfðu aldur til að drekka. „Það var talsvert hellt niður af áfengi og eitthvað haldlagt. Það var eitthvað að gera í því. Krakkarnir eru bara að hittast eftir sumarið. Skólarnir nýbyrjaðir eða eru að byrja og þetta er bara fylgifiskur allar menningarnætur. Þetta hefur alltaf verið svona. Við höfum þó verið ákveðnari núna, lögreglan, að grípa inn í fyrr og við byrjum kvöldið á því að hafa afskipti af unglingum og hella niður alveg grimmt. Það kemur okkur þá til góða þegar það kemur inn í nóttina.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að heillt yfir hafi gengið vel að koma fólki í og úr bænum þrátt fyrir gríðarlegan mannfjölda. Allir aukavagnar hafi verið á fullri keyrslu frá hádegi og fram á kvöld. „Við vorum sem sagt með almennt laugardagskerfi í gær og svo vorum við með fjórtán aukavagna sem við settum á leiðir sem var álag á. Svo var það þannig að tæmingin úr miðbænum gekk aðeins lengur fyrir sig en við héldum. Við vorum með sjötíu vagna sem voru að vinna í tæmingu miðbæjarins en það var stór hluti fólks sem fór á Hlemm vegna gamallar reynslu. Við vorum að keyra í fyrsta skipti frá Sæbraut þannig að við þurftum að skutla fólki frá Hlemmi niður að Sæbraut,“ segir Guðmundur.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV