Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Segir mannréttindi tryggð í íslam

18.07.2013 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrátt fyrir að deila sömu trú hafa múslimsku trúfélögin tvö sem eru starfandi á Íslandi ólíka nálgun og túlka Kóraninn á ólíkan hátt. Ýmsar staðalímyndir og hugmyndir tengdar Íslam hafa lengi verið á reiki á Vesturlöndum.

Til dæmi sú hugmynd að múslimar eigi það sameiginlegt að setja trúarleg lög ofar landslögum þar sem þeir búa og skeyti ekki um vestræn grunngildi á borð við lýðræði og einstaklingsfrelsi. Þá er það algengt viðhorf að konur séu kúgaðar í íslam. Spegillinn fékk Sverri Agnarsson, formann Félags múslima á Íslandi og Ahmad Seddeeq, ímam Menningarseturs múslima á Íslandi til þess að ræða þessar hugmyndir og útskýra afstöðu sína í nokkrum umdeildum málum. Þeir svara meðal annars þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á Facebook síðu þeirra sem mótmæla mosku á Íslandi. 

Múslimar fylgi lögum
Sverrir Agnarsson lítur á sig sem strangtrúaðan en jafnframt frjálslyndan múslima. Ahmad Seddeeq segist iðka sanna íslamstrú, en vísar því á bug að vera Wahhabisti. Hann tekur orð Kóransins alvarlega og telur að þar sé ekki að finna texta sem einungis hafi átt við á ákveðnu tímabili og séu nú úreltir. Bæði Sverrir og Ahmad halda því fram að það sé ekkert ósamræmi milli íslams og vestrænna laga og múslimar virði landslög þar sem þeir búa. Ahmad segir að íslam sé fylgjandi mannréttindum og tjáningarfrelsi og hafi raunar tryggt þau löngu áður en mannréttindahugtakið kom fram á sjónarsviðið á Vesturlöndum. Til dæmis hafi konur mátt eiga eignir fyrir 14 öldum en slík réttindi fengu þær ekki fyrr en fyrir einni eða tveimur öldum á Vesturlöndum. Þá segir hann að sterk hefð sé fyrir því innan íslam að lúta vilja meirihlutans.

Ahmad segir að alltaf megi finna fólk sem brýtur gegn lögum. Hann gagnrýnir að þegar múslimi brýtur af sér sé það alltof oft rökstutt með því að vísa til trúar hans en ekki annarra þátta svo sem menntunar eða félagslegra aðstæðna. Sverrir Agnarsson segir Sharia lögin vera mjög misskilin. Sharia sé ekki fastmótaður lagabálkur heldur aðferð. 

Gefa lítið fyrir heimsyfirráð

Sumir vilja halda því fram að múslimar vilji ná heimsyfirráðum og með því að koma sér upp mosku séu þeir að hefja hér landtöku. Báðir gefa lítið fyrir það að múslimar fylgi yfirráðastefnu. Ahmad segir þó ekkert athugavert við það að reisa íslamska skóla, sérstaklega þegar menning fólks og hefðir eru ólíkar. Hann bendir á að í heimalandi sínu, Egyptalandi, séu margir vestrænir skólar. Sverrir sér heldur ekkert að því að múslimar fái sérskóla svo framarlega sem hann færi eftir aðalnámskrá.

Kölluðu hann terrorista

Þeir segja múslima vilja aðlagast samfélaginu. Sverrir segir erlenda múslima sem hingað flytjast keppast við að læra íslensku. Ahmad segist eiga íslenska vini, bæði kristna og trúlausa. Hann sagðist hafa mætt miklum skilningi á Íslandi og sjaldan hafa orðið var við fordóma. Þó hafi það komið fyrir að unglingar sem hann hafi mætt úti á götu hafi kallað hann terrorista. Hann segist ekki viss um að allir Íslendingar vilji kynnast múslimum. Ástæðan sé mögulega sú mynd sem dregin er upp af íslam í fjölmiðlum. Hann segir milljónir múslima búa á Vesturlöndum og að þeir séu friðsamir og skili miklu til samfélagsins. Málflutningur fjölmiðla geti skapað tilhæfulausar gjár milli fólks af ólíkum trúarbrögðum.  

Segir fordóma hafa aukist

Sverri finnst fordómar Íslendinga gagnvart íslam hafa aukist verulega upp á síðkastið. Hann segir að íslamsfóbían sé orðin iðnaður í Bandaríkjunum, haldnir séu fræðslufundir gegn íslam þar sem því er haldið fram að trúarbrögðin muni leggja heiminn undir sig. Þá segir Sverrir að það beri að taka með miklum fyrirvara hugmyndum um að múslimar fjölgi sér eins og kanínur.  
Réttindi kvenna eru þekkt stef í vestrænni umræðu um íslam. Sverrir segir Kóraninn eina trúarritið sem ávarpar konur og segir þær jafnar körlum. Kúgun karla á konum sé ekki íslamskt fyrirbæri. Ekkert í Kóraninum geti afsakað slæma meðferð á konum.
Ahmad vekur einnig athygli á því að víða séu konur kúgaðar og að meira að segja á Vesturlöndum sé launamunur kynjanna óleyst vandamál. Þá spyr hann hvers vegna ekki sé fjallað meira um Biblíuna í fjölmiðlum. Þar segi meðal annars að kona sé óhrein í 33 daga eftir að hafa fætt sveinbarn og megi ekki stíga fæti inn í guðshús. Hafi hún hinsvegar fætt stúlkubarn sé hún óhrein í 66 daga. 

Koma í veg fyrir framhjáhald

Ahmad segir að samkvæmt Kóraninum sé múslimskum konum skylt að ganga með blæju. Þó sé það þannig að rétt eins og kristnir menn fari ekki alltaf eftir boðorðunum tíu þá séu múslimar ekki fullkomnir. Sumir kjósi að fara ekki eftir einhverju, til dæmis ákveði sumar konur að ganga ekki með blæju. Hann útskýrir hvers vegna múslimum finnst blæjan nauðsynleg. Manneskjur séu breyskar og ef kona gengur um án blæju og sýnir þar með fegurð sína öðrum en eiginmanni sínum geti það vakið áhuga annars karlmanns á henni og þannig leitt til framhjáhalds. Hann segir karla og konur vera ólík þegar kemur að fegurð. Konur hugi meira að útlitinu en karlar og því sé ekki ástæða til þess að karlmenn gangi með blæju. Hann segir að það sé ekki verið að gera þá kröfu að konur líti illa út, þær megi klæðast fallegum fötum en það séu ákveðin takmörk. Fötin megi ekki vera of þröng eða flegin. Hann segir kröfuna um að hylja hár sitt og klæðast látlausum fatnaði ekki endilega alltaf vera það sem einstaklingurinn vill, en líkt og með mörg lög sé það í þágu stöðugleika samfélagsins í heild. Það minnki líkur á skilnaði og komi í veg fyrir að fjölskyldur sundrist. Ahmad vekur athygli á því að í Íslam sé ekki gerð krafa á neinn um að hylja andlit sitt, einungis hárið. Sumar konur vilji þó gera það því þær álíti sig óvenju fallegar. Varðandi konur sem eru huldar frá hvirfli til ilja þá segir Ahmad það tengjast hefðum og menningu en ekki íslam.