Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Segir mál tengd Samherja ekki hafa áhrif á hæfi sitt

21.12.2019 - 19:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segir það ekki hafa áhrif á hæfi hans sem ráðherra að hann hafi þurft að segja sig frá málum sem tengjast Samherja á ríkisstjórnarfundi í gær. Prófessor í stjórnmálafræði segir fá dæmi um jafn afgerandi hagsmunatengsl.

Á ríkisstjórnarfundi í gær var ákveðið að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, myndi segja sig frá málum sem tengjast Samherja og útgerðarfélagi Akureyringa vegna fiskeldis og nytjastofna við Ísland. Málin snúa að fjórum stjórnsýslukærum sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, ber nú ábyrgð á.

„Ég er að gera nákvæmlega það sem ég sagðist ætla að gera þegar ég tók við þessu embætti í desember árið 2017, að ef mál kæmu á mitt borð sem snerta Samherja sérstaklega þá myndi ég meta hæfi mitt. Þessi ákvörðun sem ég ber upp við forsætisráðherra er að óska eftir staðgengli við þessa ákvörðun sem snýr að stjórnsýslukærunum. Þannig að þetta er fullkomlega eðlilegt,“ segir Kristján Þór.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði við fréttastofu í dag að það væri neyðarviðbragð og yfirklór að Kristján ætli einungis að segja sig frá málum Samherja en halda áfram sem sjávarútvegsráðherra. Þá telja Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og Oddný Harðardóttir, formaður Þingflokks Samfylkingarinnar, nauðsynlegt að hann víki úr sæti sjávarútvegsráðherra.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir vandkvæði ráðherra felast í umfangsmikilli starfsemi Samherja. „Vandi hans er auðvitað sá að umsvif fyrirtækisins eru það mikil og víðfeðm að þau snerta miklu fleiri svið ráðuneytisins heldur en þarna eru tekin út fyrir sviga. Ég er ekki alveg viss um að þetta leysi málið fyrir hann endanlega. Í rauninni eru fá fordæmi til fyrir því að vina- og hagsmunatengsl snerti með svona afgerandi hætti svona mikinn kjarna í starfsemi ráðuneytis,“ segir Eiríkur.

„Það hefur verið galli á umræðunni hér á Íslandi að við erum gjörn á það að tengja afsagnir ráðherra við einhvers konar sekt eða viðurkenningu á sekt. Það er auðvitað ekki aðeins við slíkar aðstæður sem ráðherra kann að þurfa að segja af sér. Stundum koma upp mál eða aðstæður breytast með þeim hætti að ráðherrann er orðinn - vegna atburða sem hann ræður ekki við sjálfur - vanhæfur í einhverjum málum. Þá er eðlilegasti hlutur í heimi að stíga til hliðar,“ segir Eiríkur.

Eiríkur segir að með ákvörðun ríkisstjórnarinnar sé verið að viðurkenna að hagsmuna- og vinatengslin séu svo náin að ráðherra ráði ekki við ákveðin mál og sé vanhæfur. Kristján er ósammála því að umfangsmikil starfsemi Samherja hafi almennt áhrif á hæfi hans sem sjávarútvegsráðherra. Sé vafamál um hæfi sé það metið hverju sinni.