Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Segir lyfin ekki fáanleg í Albaníu

13.12.2015 - 20:39
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Faðir langveiks albansks drengs segir að lögmaður þeirra hafi ráðlagt þeim að hætta við að kæra synjum um hæli, því litlar sem engar líkur væru á jákvæðri niðurstöðu. Hann segir að lyf við slímseigjusjúkdómi sem sonur hans þjáist af séu ekki fáanleg í Albaníu.

Tveimur albönskum barnafjölskyldum, sem sótt hofðu um hæli á Íslandi var vísað af landi brott í síðustu viku. Í annarri fjölskyldunni er hjartveikur drengur, en í hinni er Kevin sem haldinn er slímseigjusjúkdómi, sem er alvarlegur sjúkdómur. Eftir að fjölskyldu Kevins var synjað um hæli kærði fjölskyldan þann úrskurð, en áður en úrskurðarnefnd lauk skoðun sinni á málinu, dró fjölskyldan kæruna til baka.

„Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að lögmaðurinn okkar ráðlagði okkur það, hún sagði að það væru litlar sem engar líkur á því að við myndum fá samþykkt hæli. Kevin fékk ekki lengur þá aðstoð sem hann hafði fengið áður á spítalanum. Læknarnir sögðu að Útlendingastofnun myndi ekki borga lengur læknismeðferðina því hún væri mjög dýr“, segir Kastriot Pepaj, faðir Kevins. 

Hann segir að fjölskylda sín hafi komið til Íslands með von um hæli vegna veikinda Kevins. Hún hafi ekki komið hingað til lands af fjárhagsástæðum eða neins slíks eins og sumir kannski haldi, heldur einvörðungu til að fá læknismeðferð fyrir drenginn. 

„Mér leið mjög vel á Íslandi því Kevin leið mjög vel.“

Kastriot segir fjölskylduna nún dvelja í Skoder í Albanínu hjá fjölskyldu hans. Hann segist bíða eftir tækifæri til að fara úr landi á ný með Kevin  í von um læknismeðferð.

„Í Albaníu eru ekki til lyf við þessum sjúkdómi. Ég var með fullt af gögnum um það að þessi lyf væru ekki fáanleg í Albaníu. Í viðtalinu hjá kærunefnd spurði ég hvort þeir myndu ábyrgjast að þessi lyf væru fáanleg í Albaníu, en þeir gátu ekki gert það. Heilbrigðiskerfið í Albaníu hentar engan veginn. Það er ekkert hérna fyrir Kevin þar sem þessi lyf eru ekki fáanleg.“

Kastriot segir að samkvæmt internetinu eigi þessi lyf að vera til, en eftir athugun hafi hann komist að hinu gagnstæða. Hann hafi sjálfur keypt lyf frá Ítalíu. Það séu lyf sem fáist í apótekum, en aðal lyfin fáist eingöngu á sjúkrahúsum.

Þá segist hann hafa náð að fylgjast með umræðunni á Íslandi eftir að þeim var vísað  úr landi og skrifað hafi verið um málið í albönskum blöðum. Hann segir að sér sýnist sem Útlendingastofnun líti á alla hælisleitendur sem sömu manneskjuna, eins og staðlað form, en þannig eigi ekki að meðhöndla svona mál. Allir séu ólíkir með mismunandi sögur.

„Aðferðin hvernig við vorum sótt og send úr landi var mjög óvenjuleg. Mér leið eins og við værum hryðjuverkamenn í fylgd með öllum þessum lögreglumönnum. Börnin mín eru ekki enn búin að jafna sig eftir þetta og eru enn hrædd. Það voru miklu fleiri lögreglumenn heldur en við þegar við vorum sótt. Á ferðalaginu voru til dæmis sumir handjárnaðir. Þetta tel ég ekki vera eðlilegt. Fólk myndi ekki trúa mér ef ég segði frá þessu“, segir Kastriot.

Hann segist virða og elska Ísland. Fólkið sem kom til að kveðja þau hafi verið ótrúlegt. „Ég er ánægður með alla nema Útlendingastofnun. Ég vil þakka öllum fyrir hjálpina.“ Kastriot segist hiklaust koma aftur til Íslands ef sonur hans fengi þá læknismeðferð sem hann þarf á að halda. „Börnin mín eru mjög leið og sakna Íslands. Kevin segir alltaf við mig að hann sakni vinar síns á leikskólanum og vilji fara þangað aftur.“

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV