Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir Kristján Þór hafa hitt þremenningana

Samherjaskjölin Stundin
 Mynd: Fréttir
Fyrrum starfsmaður Samherja fullyrðir að Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi stjórnarformaður Samherja og nú sjávarútvegsráðherra, hafi hitt þremenningana frá Namibíu þegar þeir funduðu með Samherja hér á landi árið 2014. Þetta kemur fram í sérútgáfu Stundarinnar í kvöld. 

Stundin hefur þetta eftir Jóhannesi Stefánssyni, fyrrverandi starfsmanni Samherja. Fundurinn var haldinn í höfuðstöðvum Samherja í Borgartúni og á Þorsteinn Már Baldvinsson að hafa kynnt Kristján sem "sinn mann" í ríkisstjórninni. Kristján Þór var á þeim tíma heilbrigðisráðherra. Hann var formaður stjórnar Samherja á árunum 1996-98.  

Segir heimsókn Kristjáns hafa verið fyrir fram skipulögð

Þremenningarnir Tamson, James og Sacky, kallaðir hákarlarnir, eiga að hafa unnið að því gegn mútugreiðslum að útvega Samherja kvóta í Namibíu - í gegnum tengsl sín við sjávarútvegsráðherra landsins. Jóhannes segir jafnframt að Kristján Þór hafi ekki stoppað lengi á fundinum, aðeins um 10 mínútur en erindi hans á fundinn hafi verið óljóst.

Fram kemur í Stundinni að Kristján Þór útiloki ekki að hafa hitt þremenningana en hann hafi ekki setið fundinn. Jóhannes segir að hann telji að heimsókn Kristjáns hafi verið skipulögð fyrir fram. Koma hans hafi ekki þjónað neinum öðrum tilgangi heldur en að sýna að Þorsteinn hafi líka verið valdamikill og tengdist einhverjum í ríkisstjórn. Jóhannes segir sömuleiðis Kristján Þór hafa nokkrum sinnum komið á skrifstofu Þorsteins Más á árunum 2012 til 2016. Kristján Þór neitar þessu og segist ekkert hafa farið á skrifstofu Samherja eftir að hann varð sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra. 

Reikningum Samherja lokað vegna hættu á peningaþvætti

Í umfjöllun Stundarinnar segir enn fremur að norski stórbankinn DNB NOR hafi látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall eyjum í fyrra, vegna hættu á peningaþvætti. Samherji notaði Cape Cod til að greiða laun sjómanna sinna í Namibíu. 9,1 milljarður fór í gegnum félagið án þess að bankinn vissi hver hætti fyrirtækið. Gögn málsins sem Stundin vann í samstarfi við Wikileaks, Kveik og katörsku sjónvarpsstöðina Al Jazeera sýni þetta. 

Fram kemur að Samherji hafi verið um árabil viðskiptavinur norska bankans og fjölmörg félög útgerðarfyrirtækisins með bankareikninga þar. Eignarhaldið á Cape Cod var sagt hjá starfsmannaleigu á Kýpur sem heitir JPC Ship Management en gögnin sem Stundin er með sýna að JPC virðist hafa verið frontur fyrir Samherja og „í reynd leppað eignarhaldið á félaginu frá 2015 til 2018.“ 

Sá sem stýrði bankareikningum Cape Cod FS hafi meðal annars verið fjármálastjóri Kötlu Seafood, dótturfélags Samherja á Kanaríeyjum, Brynjar Þórsson. Brynjar segir í samtali við Stundina að hann muni ekki eftir félaginu og eina ástæðan fyrir því að nafn hans sé á pappírum tengdum félaginu sé vegna þess að hann hafi verið fjármálastjóri hjá Kötlu og prókúruhafi til þess að millifæra. Hann neiti því ekki að hafa verið að millifæra og greiða sjómannalaun en hann muni ekki frá hvaða reikningi.

Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar neituðu JPC Ship Management að gefa upp endanlega eigendur Cape Cod FS, þegar norski bankinn spurðist um það í fyrra. Voru því reikningum félagsins og JPC lokað í bankanum vegna hættu á að peningaþvætti væri stundað í gegnum þá.

Fréttin hefur verið uppfærð

Kristján Þór Júlíusson
 Mynd: Fréttir
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra.

 

Í umfjöllun Stundarinnar segir enn fremur að norski stórbankinn DNB NOR hafi látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall eyjum í fyrra, vegna hættu á peningaþvætti. Samherji notaði Cape Cod til að greiða laun sjómanna sinna í Namibíu. 9,1 milljarður fór í gegnum félagið án þess að bankinn vissi hver hætti fyrirtækið. Gögn málsins sem Stundin vann í samstarfi við Wikileaks, Kveik og katörsku sjónvarpsstöðina Al Jazeera sýni þetta.

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV